134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

[15:10]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fékk eins og aðrir þessa skýrslu frá Hafrannsóknastofnun um helgina með þeim alvarlegu tíðindum sem þar koma fram sem auðvitað munu, ef það gengur eftir, hafa veruleg áhrif á bæði íslenskt efnahagslíf og ekki síst sjávarbyggðirnar um land allt. Ég held að ég hljóti eins og aðrir þingmenn að áskilja mér rétt til að fara yfir þessi mál og hlýða á þá sérfræðinga sem um þau fjalla og sem m.a. munu hafa kynnt þetta fyrir þingmönnum í morgun og taka síðan mína ákvörðun og mynda mér afstöðu ásamt væntanlega öðrum, ekki bara í ríkisstjórn heldur hljóta líka allir þingmenn að hafa af þessu áhyggjur, vilja koma að þessu máli og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Eftir góða yfirferð munum við að sjálfsögðu taka afstöðu til málsins.