134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:12]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir jákvæð viðbrögð við máli mínu. Það sem má segja að sé kannski kjarninn í þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram er að í því frumvarpi sem fyrir liggur er aðeins tekið á afmörkuðum þáttum málsins, það er rétt, og menn sakna þess að sjá ekki meira á spilin, hvaða hugmyndir eru í gangi. Í framsöguræðu sinni með frumvarpinu sagði hæstv. forsætisráðherra m.a. að það þyrfti að klára þetta stjórnarráðsfrumvarp strax svo allir viti hvert stefna ber og hafi fast land undir fótum.

Ég tek undir þetta, það er mikilvægt að menn hafi fast land undir fótum. En sannleikurinn er auðvitað sá að fæstir hafa fast land undir fótum með þessu frumvarpi vegna þess að það vita allir að það hangir meira á spýtunni með reglugerðarbreytingu og þeir sem eru undir það settir hafa ekki fast land undir fótum. Þess vegna hefði verið gott að fá að sjá hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar í nefndinni jafnvel þó að þær væru þar aðeins til kynningar en ekki endilega til endanlegrar afgreiðslu.