134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:15]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins Guðni Ágústsson hafi hitt naglann á höfuðið í seinna andsvari sínu þegar hann sagði að þetta mál væri ekki svo stórt. Þess vegna finnst mér dálítið merkilegt hvað hv. þingmaður er ótrúlega viðkvæmur gagnvart því og hefur uppi stór orð.

Mig langar til þess að varpa fram spurningu til hv. þingmanns af því hann eyddi töluverðu púðri í sinni ræðu í að fjalla um landbúnaðarháskólana og framtíð þeirra. Hann nefndi það sérstaklega að honum þætti vænt um þessa skóla. Ég hygg að allir þeir sem sitja í þessum þingsal séu sammála hv. þingmanni um það að okkur þykir öllum vænt um landbúnaðarháskólana og viljum veg þeirra sem mestan. En það hafa verið uppi sjónarmið um að menntamálaráðuneytið eigi að fara með yfirstjórn þessara skóla, eins og yfirstjórn menntamála yfirleitt.

En hv. þingmaður hefur verið mikill talsmaður þess að landbúnaðarháskólarnir sem atvinnuvegaháskólar falli undir landbúnaðarráðuneytið. Þá hlýt ég að spyrja hv. þingmann, af því það þýðir ekki að segja bara A, menn verða líka að segja B: Sér hv. þingmaður það fyrir sér að aðrir atvinnuvegaháskólar falli undir fagráðuneyti á hverju sviði? Telji hv. þingmaður að landbúnaðarháskólarnir eigi að falla undir landbúnaðarráðuneytið, ætti þá ekki það sama t.d. að gilda um Iðnskólann í Reykjavík? Væri ekki skynsamlegast að sá ágæti skóli félli undir iðnaðarráðuneytið? Hvað með Fjöltækniskóla Íslands? Væri honum ekki að minnsta kosti að hluta best komið undir sjávarútvegsráðherra o.s.frv.? Mér þætti vænt um að fá svör frá hv. þingmanni (Forseti hringir.) við þessari spurningu minni.