134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:24]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er í sjálfu sér fróðleg og skemmtileg umræða sem hér fer fram um það frumvarp sem liggur fyrir um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Áhugi þingmanna leynir sér ekki. Þetta eru málefni sem við höfum gaman af að ræða og takast á um og ég vil leyfa mér að halda því fram að það hefði verið farsælla og vænlegra til góðs eða gjöfuls árangurs í þessum málum að fara öðruvísi að á fyrstu stigum, kannski í mars sl. þegar hæstv. forsætisráðherra ámálgaði það við formenn stjórnmálaflokkanna hvort hægt væri að ná einhvers konar samkomulagi um það sem hann segir okkur nú að sé einungis f-liður 1. gr., þ.e. að heimilt ætti að vera að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta, með forsetavaldi. Hann er að upplýsa okkur um það hér, hæstv. ráðherra, að það hafi einungis verið þetta sem það samkomulag sem hann ætlaði að reyna að ná í mars hafi falið í sér

Ég tel að í þessu fyrsta máli sem við tökum hér til umfjöllunar séu hæstv. ráðherrar að sniðganga lykilsetningu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þ.e. niðurlagssetninguna í fyrstu efnismálsgrein stefnuyfirlýsingarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi og standa vörð um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess.“

Mér þykir auðvitað mjög miður að ríkisstjórnin skuli ekki fara betur af stað hvað þetta varðar en raun ber vitni. Hér er dæmigert mál sem þarfnast samvinnu og samkomulags þannig að ég hefði haldið að hér hefði ríkisstjórnin átt að sýna á fleiri spil, sýna okkur þá framtíðarsýn sem ég ímynda mér að hún hafi a.m.k. að einhverju leyti og leyfa okkur að takast á um það í nefndastörfum á Alþingi eða á einhverjum vettvangi þar sem allir stjórnmálaflokkar eiga jafna aðkomu. Eða hefur ríkisstjórnin enga framtíðarsýn varðandi þetta mál sem hér er lagt fram? Ef svo er ekki hvaðan eru þá komnar þær flugufregnir sem við höfum haft á takteinum og heyrt í umræðunni og við höfum sennilega flestar úr fjölmiðlum um þær breytingar sem mögulegar eru í vændum? Þá er ég að tala um það sem nefnt hefur verið hér varðandi málefni t.d. Íbúðarlánasjóðs. Hefur ríkisstjórnin það á stefnuskrá sinni eða er talað um það í baklandi hennar að færa eigi málefni Íbúðarlánasjóðs til fjármálaráðuneytisins? Eiga ferðamálin að fara í iðnaðarráðuneytið? Eiga matvælamálin að fara í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið? Eiga vatnamálin að fara í umhverfisráðuneytið og hvaða þættir þeirra þá? Á þróunaraðstoðin að fara í viðskiptaráðuneytið? Landgræðslan og skógræktin í umhverfisráðuneytið?

Um þetta höfum við heyrt fregnir. En hæstv. forsætisráðherra þegir þunnu hljóði um þetta hér og sýnir ekki á nein spil þannig að ég vil ítreka hér beiðni frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um að þær hugmyndir sem eru hér á bak við ef einhverjar eru verði allar lagðar fram í umfjöllun málsins í allsherjarnefnd. Það er það minnsta sem hæstv. ráðherra getur gert til að reyna að láta líta svo út að verið sé að tala saman á einhverjum jafnréttisgrunni í þingnefndinni um þetta viðamikla mál sem okkur er öllum hjartans mál. Okkur er öllum mikið niðri fyrir um þetta mál og langar til að koma að því að skapa það í sameiningu. Einhver sagði að 21. öldin væri öld samsköpunar. Það ætti að kenna ríkisstjórninni það að fara eftir þeim orðum sem hún sjálf leggur inn í stefnuyfirlýsingu sína.

Hæstv. ráðherra sagði áðan í framsöguræðu sinni að verið væri að búa í haginn fyrir frekari breytingar, þetta væru lágmarksbreytingar nú og þetta væri í raun og veru lítið skref. Allt þetta gefur okkur til kynna að hér séu frekari breytingar í vændum og okkur finnst að það sé rétt að fá tækifæri til að ræða þær á breiðum grunni hér og nú.

Að mínu mati er æskilegt að fækka ráðuneytum og það er æskilegt að mati flestra þeirra sem hafa tjáð sig um þessi mál á undanförnum missirum. Hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde hefur sagt í fjölmiðlum og ég er t.d. með útskrift af frétt úr Ríkisútvarpinu frá því í apríl sl. þar sem hann fjallar um það í tengslum við landsfund Sjálfstæðisflokksins að honum finnist það álitlegt að fækka ráðuneytum í tíu, það væri álitlegt að hafa tíu öflug ráðuneyti og jafnframt sveigjanleika til að breyta verkaskiptingu milli ráðuneytanna á skilvirkari hátt en nú væri heimilt. Tíu ráðuneyti, ég get alveg tekið undir það. Mér finnst það skynsamlegt og mér finnst skynsamlegt að gera slíkar breytingar í tengslum við ríkisstjórnarskipti þannig að ég hefði haldið að ríkisstjórn ætti að koma fram með hugmynd um tíu ráðuneyti nú, um eitt stórt atvinnuvegaráðuneyti en ekki að fara undan í flæmingi í umræðunni eins og hæstv. ráðherra gerir og segir að eitt stórt atvinnuvegaráðuneyti sé einfaldlega of risavaxið til að fara út í þá framkvæmd núna. Ég er ekki viss um að það sé neitt risavaxið því þetta er eitthvað sem fulltrúar í flestum stjórnmálaflokkum hafa viljað ræða og viljað velta upp. En við viljum eiga þátt í því að sjá fyrir okkur á hvern hátt málaflokkunum yrði komið fyrir innan slíks ráðuneytis. Það er sem sagt spurning um hvað hafi verið samið milli stjórnarflokkanna, hvort um eitthvað hafi verið samið og hvaða breytinga sé að vænta að mati þeirra sem sitja þar við stjórnvölinn fyrir hönd stjórnarflokkanna.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum viljað fara þá leið að skera upp Stjórnarráðið. Við höfum greint frá því í stefnumótunarplaggi okkar um græna framtíð á hvern hátt við sjáum t.d. stjórnsýslu umhverfismálanna sem við teljum vera einn af þeim meginmálaflokkum sem 21. öldin þarf að fjalla um og við teljum grundvallaratriði að málefni umhverfisráðuneytisins færist skör ofar í stjórnsýslunni en verið hefur til þessa. Okkur hefur fundist að ráðuneyti umhverfismála hafi verið svolítil afgangsstærð og það hafi kannski aldrei fengið þann byr í seglin sem það hefði þurft. Í raun og veru geldur það þess enn að vera yngsta ráðuneytið og okkur finnst efni standa til þess að umhverfisráðuneytið fái miklu virðingarmeiri sess í Stjórnarráðinu. Það má segja sem svo að ráðuneyti fjármála sé næstsett forsætisráðuneytinu þar sem fjármálaráðuneytið setur öllum hinum ráðuneytunum lög, öll hin ráðuneytin verða að vinna samkvæmt fjárlögum sem samin eru í fjármálaráðuneytinu.

Við vinstri græn gætum séð fyrir okkur sams konar fyrirkomulag varðandi umhverfisráðuneytið. Við viljum sjá fyrir okkur umhverfisráðuneyti sem væri á pari við fjárlagaráðuneytið í Stjórnarráðinu þannig að umhverfisráðuneytið væri það umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem legði öllum hinum atvinnuvegaráðuneytunum línurnar. Það gæfi þeim ákveðinn ramma og þau gætu síðan stýrt eða stjórnað auðlindum og nýtingu þeirra út frá þeim grundvallaratriðum sem yrðu samþykkt eða samin í umhverfisráðuneytinu. Í okkar huga er þetta lykilatriði í stjórnsýslunni og í nýjum hugmyndum um Stjórnarráðið, að umhverfisráðuneyti og fjármálaráðuneyti séu jafnsett og hafi sterkara umboð en núna er og leggi línurnar fyrir önnur ráðuneyti. Við álítum að t.d. rannsóknirnar á náttúruauðlindunum bæði til lands og sjávar, verndun náttúruauðlindanna og allar meginlínur í áætluninni um nýtingu auðlindanna eigi að vera á forræði umhverfisráðuneytisins. Í því sambandi höfum við talið að það ætti að heita umhverfis- og auðlindaráðuneyti og hefði þá fengið víðara og efnismeira hlutverk en það hefur í dag. Skipulagsmálin eru mál sem eru fyrirferðarmikil í umræðunni núna. Það er alveg ljóst að það má endurskoða á hvern hátt þeim er fyrir komið í stjórnsýslunni og við eigum örugglega í vændum á næsta haustþingi að fjalla um ný skipulags- og byggingarlög eða skipulags- og mannvirkjalög. Það væri því viðeigandi að efla umhverfisráðuneytið og auka hlutverk þess og vægi í tengslum við þau nýju lög sem við munum fjalla um innan skamms.

Það er mitt mat að atvinnuvegaráðuneyti hefði verið skynsamleg lausn og ég held að við séum alveg tilbúin að fara út í það að stofna eitt öflugt atvinnuvegaráðuneyti. Það má segja af því að hæstv. fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hv. núverandi þingmaður Guðni Ágústsson ber fyrir brjósti skógrækt og landgræðslu — það geri ég líka og ég hefði gaman af því að eiga orðastað við þingmenn almennt um málefni skógræktar og landgræðslu — og hv. þm. Guðni Ágústsson sagði áðan að það gæti vel verið að einhverjir gamlir birkiskógar mættu verða eftir í umhverfisráðuneytinu en skógræktin og landgræðslan ættu að vera í landbúnaðarráðuneytinu. Ég er sammála hv. þingmanni að því leytinu til að atvinnuvegurinn, t.d. skógarhögg eða nytjaskógrækt á að sjálfsögðu heima í atvinnuvegaráðuneytinu eins og landbúnaðarráðuneytinu en að sama skapi finnst mér að vernd skóglendis eigi að vera í umhverfisráðuneytinu. Ég held meira að segja við hv. þm. Guðni Ágústsson getum náð fínu samkomulagi um einhverja línu sem yrði dregin þarna á milli atvinnuvegarins sem slíks og síðan verndarþáttarins. Það sama má segja um landgræðsluna. Landgræðslan er að hluta til atvinnuvegur, þ.e. hvað landbúnaðinn varðar, störf bænda og hlutverk þeirra í landgræðslunni en landgræðsla er líka landvernd þannig að ég held að þarna sé dæmigerður málaflokkur sem á að skipta upp, annars vegar undir atvinnuvegaráðuneyti og hins vegar undir verndarráðuneytið.

Þetta segi ég til marks um að hér eru stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn sem hafa skoðanir, hreinar og klárar skoðanir á því hvernig á að véla um málin. Stjórnmálamennirnir sem standa að stjórnarflokkunum hafa þessar skoðanir líka og það er óeðlilegt að við förum af stað í þessa vegferð án þess að stjórnmálamenn sýni okkur á spil sín, að það sé teiknuð hér upp einhvers konar framtíðarmynd af því sem hin nýja ríkisstjórn sér fyrir sér. Í mínum huga byggir áframhaldandi starf hennar og grundvöllur á því hvernig þetta fólk sér Stjórnarráð Íslands fyrir sér í allra nánustu framtíð.

Af því að við erum að nefna atvinnuvegaráðuneytin þá rakst ég á leiðara í Morgunblaðinu frá því í desember sl. þar sem fjallað er um verkaskiptingu ráðuneyta. Morgunblaðið skírir þennan leiðara sinn Verkaskipting ráðuneyta og af því að það hefur verið fjallað um það nú í umræðunni að Morgunblaðið sé virkur þátttakandi í stjórnarstefnunni og mótun stjórnarstefnunnar þá fannst mér alveg viðeigandi að koma með örlitla frásögn af þessum leiðara inn í umræðuna. Þar átelur Morgunblaðið þáverandi stjórnvöld fyrir að ósamræmi sé í verkaskiptingu ráðuneytanna og ráðuneytin vinni hvert gegn öðru og þá ekki síst þau sem með atvinnuvegina fara. Eitt ráðuneytið byggi upp markað erlendis á meðan annað ráðuneyti brjóti niður. Þessi leiðari var skrifaður á þeim tíma sem ríkisstjórnin hafði heimilað hvalveiðar á nýjan leik, 8. desember 2006. Það kom t.d. fram í máli leiðarahöfundarins að gagnrýnt var að ferðaþjónustan, sem samgönguráðuneytið fer með, setji tugi milljóna í kynningu á Íslandi sem samfélagi þar sem lifað er í sátt við náttúruna fyrir ferðamenn í löndum eins og Þýskalandi og Bretlandi þar sem umhverfisverndarsamtök eru gríðarlega sterk en síðan tryggir sjávarútvegsráðherra fjölmiðlum í sömu löndum myndir af Íslendingum að hluta í sundur hvali. Leiðarahöfundur lýkur leiðara sínum með því að segja, með leyfi forseta: „Þetta hlýtur að vera það, sem átt er við þegar talað er um verkaskiptingu ráðuneyta.“ Ég vona að það sé ekki svona verkaskipting sem stjórnarherrarnir sjá fyrir sér núna. Ég vona að við séum að fara inn á einhverja braut þar sem hægt verður að búa til meira samræmi og meiri samhljóm en leiðarahöfundurinn í Morgunblaðinu í desember sl. gefur til kynna að sé til staðar.

Það er ekki bara á Íslandi sem ný ríkisstjórn er að taka við. Það er líka í Frakklandi og af því að ég var að segja frá því hvernig við vinstri græn sjáum fyrir okkur nýja stöðu umhverfisráðuneytisins á 21. öldinni þá þykir mér afar athyglisvert að Nicholas Sarkozy, nýr forseti í Frakklandi, skuli leggja af stað með sína nýju ríkisstjórn á þeim nótum að hann ákveður að umhverfisráðuneytið skuli frá og með nú færast úr 13. sæti í virðingarröðinni í skipaninni í franska stjórnarráðinu, upp í 2. sæti. Með öðrum orðum, umhverfisráðuneytið í frönsku stjórninni á að vera næststatt forsætisráðuneytinu og Alain Juppé umhverfisráðherra er þar af leiðandi orðinn næstæðsti ráðherrann í ríkisstjórninni. Hvers vegna vill Nicholas Sarkozy hafa þetta svona? Hann segir að baráttumál umhverfisins séu baráttumál 21. aldarinnar og það skipti verulegu máli að orkuiðnaðurinn, samgöngurnar og umhverfismálin eigi heima í öflugasta ráðuneyti ríkisstjórnarinnar. Hann setur orkumálin öll undir umhverfisráðuneytið og lítur á orkumál sem umhverfismál og sömuleiðis samgöngumálin.

Í tengslum við hina nýju ríkisstjórn Frakklands og hina nýju skipun umhverfismálanna þar nefna menn loftslagsbreytingarnar sem forgangsmál og raunhæfar aðgerðir til að stemma stigu við þeim. Orkusparnaður er í öllu því starfi sem þar fer fram núna lykilorð og lykilatriði og sömuleiðis að orkuiðnaðurinn falli undir eða lúti lögmálum umhverfisráðuneytisins og þeim reglum sem umhverfisráðuneytið setur. Hvert var svo fyrsta verk hins nýja umhverfisráðherra? Það var að boða samráðsfund, stóran öflugan samráðsfund félagasamtaka sem starfa á vettvangi umhverfismálanna til þess að ræða þessar stjórnkerfisbreytingar. Þá var búið að ræða þær við ríkisstjórnarborðið þannig að fyrsta verk hins nýja ráðherra var að kalla félagasamtökin til skrafs og ráðagerða um hinar nýju stjórnkerfisbreytingar og það hvernig samtalið á milli þessara aðila eigi að vera í náinni framtíð, hvernig þau geti í sameiningu markað stefnu sem byggi á umhverfissjónarmiðum, umhverfissjónarmiðum sem eru þá uppspretta nýrra tækifæra t.d. hjá atvinnuvegunum. Það er talað um það hjá frönsku ríkisstjórninni að fjárfestingar í umhverfismálum séu þess eðlis að þær eigi að nýta sem fjárfestingar og sem hluta af hagvextinum í samfélaginu og ný tækifæri en ekki alltaf sem einhverja byrði eða einhvern bagga. Ég get svo sem farið yfir það í mörgum orðum hvernig Frakkar fara að þessu í sínu landi. Mér hefur fundist það vera til fyrirmyndar og ég hefði talið að í sambandi við þessa umræðu ættum við að geta fjallað á sama hátt djúpt um þetta mál og velt upp öllum hliðum þess og á endanum fengið út niðurstöðu sem að mínu mati væri skynsamleg, sem er fækkun ráðuneyta.

Í því sambandi er rétt að nefna það hér sem hefur verið nefnt í þessari umræðu að skipting ráðuneytanna í hinni nýju ríkisstjórn er athyglisverð í sjálfu sér og það er ekkert óeðlilegt þó að fólki sýnist Samfylkingin hafa farið með fremur rýran hlut frá þeirri skiptingu þar sem Samfylkingin hefur miðað við fyrri skipan mála einungis fimm ráðuneyti en Sjálfstæðisflokkurinn hefur í raun yfir sjö ráðuneytum að ráða. Þar af hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið að taka til sín heilbrigðisráðuneytið beinlínis í pólitískum tilgangi sem manni finnst auðvitað afar miður.

Hæstv. forseti. Að þessu leyti er hér um að ræða mál sem verðskuldar samráð, samvinnu okkar sem hér störfum á löggjafarsamkomunni. Að mínu mati hefði betur verið ef við hefðum getað farið af stað með örlítið meiri samstarfsvilja en hér er sýndur og við hefðum þá líka vitað aðeins meira um það sem að baki býr, vitað um þau sjónarmið og þá sýn sem ríkisstjórnin ætlar sér að keyra eftir inn í nánustu framtíð.