134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[13:59]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska forseta velfarnaðar í störfum sem forseta þings og einnig vil ég þakka hv. þm. Ingibjörgu Ingu Guðmundsdóttur fyrir að vekja þessa utandagskrárumræðu og óska ég henni til hamingju með jómfrúrræðu sína og alls hins besta í þingstörfum.

Mig langar til að geta þess að þann 14. júní árið 1999, fyrir átta árum næstum því upp á dag, sté ég í þennan stól í fyrsta sinn og vakti þá utandagskrárumræðu um þann vanda sem fiskverkafólk víða um land stæði frammi fyrir. Og hér erum við stödd að gera það sama. Byggðavandinn hefur ekki farið minnkandi og það er alveg ljóst að kvótakerfið og það kerfi sem við höfum búið við í sjávarútvegi hefur átt sinn stóra þátt í því. Ég verð að segja það, herra forseti, að áður en tillögur Hafró komu átti ég von á því að við fengjum að heyra að fiskveiðiheimildir yrðu auknar og maður sá fyrir sér að það yrði hægt að auka byggðakvóta til mikils muna í anda þess ríkisstjórnarsáttmála sem hefur verið gerður. Svo fáum við þetta í höfuðið og þá verður vandinn náttúrlega enn þá meiri.

Það er talað um fjölbreytni í atvinnulífinu sem nauðsynleg er og fagna ég því sem hæstv. iðnaðarráðherra lagði hér fram um fjölgun opinberra starfa. Auðvitað getum við ekki bara sagt fisk, fisk, fisk, auðvitað verður að vera fjölbreytni. Grundvöllurinn er samt fiskur eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði. Þrátt fyrir þetta ástand sem nú er vona ég að það verði hægt að auka byggðakvótann til muna (Forseti hringir.) til að grunnatvinnan verði tryggari.