134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:21]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með svör hæstv. forseta við þeirri málaleitan sem ég færði fram. Ég ítreka og endurtek þau orð mín að hæstv. forseti, sem hlaut mjög góða kosningu hér á fimmtudaginn var á þingsetningarfundi og miklar vonir eru bundnar við, veldur miklum vonbrigðum við afgreiðslu þessa máls. Hæstv. forseta er í lófa lagið að jafna þessi mál á sérfundi með stjórnum þingflokkanna og tryggja það að þessi svipur sé ekki á störfum löggjafarsamkomunnar og hæstv. forseti verður að átta sig á því að hann er jafnmikill forseti okkar í stjórnarandstöðunni og þeirra sem stýra þessum sterka meiri hluta. Það er ljóst að meiri hlutinn er mjög sterkur, það veit alþjóð og það er í sjálfu sér ekki slæmt mál heldur gott og hæstv. ríkisstjórn á auðvitað að kunna að notfæra sér styrkleika sína, ekki með ofbeldi og óbilgirni heldur með skynsemi og stjórnvisku. Hún er ekki að fara fram með þeim hætti sem eðlilegt getur talist í ljósi stærðar sinnar og styrkleika og hæstv. forseti á ekki að styrkja þessa ríkisstjórn í því að fara fram með þeim hætti sem ríkisstjórnin er að gera. Hann á að standa upp og verja lýðræðisleg vinnubrögð á Alþingi Íslendinga og tryggja það að hér sé samráð um hvernig mál eru afgreidd á löggjafarsamkundunni. Enn er okkur í lófa lagið að kjósa þær þingnefndir sem 13. gr. þingskapa gerir ráð fyrir að gert sé á fyrsta fundi Alþingis. Enn getur forseti tekið ákvörðun um að það verði gert og málin tvö verði síðan látin fylgjast að í umræðum á þinginu. Ég lýsi því yfir, hæstv. forseti, að það eru mér mikil vonbrigði hver viðbrögð hæstv. forseta hafa verið við þeirri málaleitan minni sem hér var borin fram.