134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[14:53]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Við frjálslyndir tökum undir með 1. minni hluta varðandi þær formlegu athugasemdir sem gerðar eru, eins og kemur reyndar fram í áliti 2. minni hluta, þ.e. að það hefði verið eðlilegt að kjósa í starfsnefndir eins og þingsköp mæla fyrir um og fram kom í máli mínu í umræðum um þetta efni í gær.

Það liggur hins vegar fyrir að á þingsetningardegi var farið í gegnum þá umræðu og niðurstaðan varð ljós, þ.e. hver vilji meiri hlutans var í því efni. Í gær fórum við í gegnum umræðu af sama toga. Niðurstaðan var ljós í því efni þá og enn í dag hefur slík umræða verið sett á.

Að okkar mati var fullreynt, eftir þær umræður sem áttu sér stað á þingsetningarfundi og í gær. Við gætum ekki komið því til leiðar, ekki komið því viti fyrir meiri hlutann, að þingnefndir yrðu kjörnar samkvæmt þingsköpum. Þá vaknar spurningin um hvernig skuli fara að. Það er alltaf erfitt og hefur jafnan verið ómögulegt fyrir fólk að reyna að berjast í föllnum vígjum. Það sýnist mér 1. minni hluti vera að reyna að gera. Það er hins vegar skoðun mín og okkar frjálslyndra að það sé mikilvægt og skipti miklu máli að þingnefndir verði kjörnar sem fyrst. Það er ljóst að þær verða ekki kjörnar samkvæmt núgildandi þingskapalögum og þá er spurningin um hvaða leið á að fara. Þær verða ekki kjörnar, það nær ekki fram að ganga nema því frumvarpi sem hér liggur fyrir til breytinga á þingsköpum Alþingis verði veitt brautargengi. Af þeim ástæðum teljum við nauðsynlegt að flýta fyrir og hraða því að þetta frumvarp verði að lögum og kosið verði í þingnefndir. Það skiptir máli vegna þess, eins og fram kom m.a. í utandagskrárumræðum áðan, að vandi sjávarbyggða og reyndar fleiri byggða er gríðarlegur. Það er ekki vansalaust fyrir Alþingi, hverjum svo sem það er að kenna. Að sjálfsögðu tek ég undir það að þar er um að kenna þeim meiri hluta sem hér hefur staðið að, að það hefur ekki verið kosið í þær starfsnefndir, þær atvinnumálanefndir sem miklu máli skiptir að í verði kosið.

Við viljum hins vegar greiða fyrir því, þar sem enginn annar möguleiki er fyrir hendi, að það verði með þeim hætti sem meiri hlutinn hefur einsett sér. Þó að við séum ekki tilbúnir til að samþykkja afbrigði þá mælum við með því að frumvarpið verði samþykkt.

Það er vandi fyrir höndum. Það er mikilvægt að Alþingi hafi allar sínar starfsnefndir fullmannaðar og að störfum. Það skiptir máli og ræður niðurstöðunni eins og ég hef hér kynnt. Ég hvet til þess að afgreiðslu frumvarpsins verði hraðað með eðlilegum hætti.