134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:00]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum orðið vitni að því hér í þinginu undanfarna daga að ýmsir eru í aðlögun og getur orðið fótaskortur á tungunni meðan á því aðlögunarferli stendur og ég held að við hljótum öll að hafa fullan skilning á því og þurfum ekki að verða svo uppfull af pólitískum rétttrúnaði að við setjum endilega ofan í við hvert annað þó að slíkt gerist og menn noti jafnvel ekki alltaf rétt ávarpsorð.

Þetta frumvarp sem ég hef mælt hér fyrir hefur orðið þingmönnum tilefni til þess að hefja hér talsverðan málfund um málefni útlendinga sem flust hafa til Íslands annaðhvort til búsetu eða til að sækja hingað vinnu og það er í sjálfu sér ágætt. En ég neita því ekki að mér finnst þessi umræða sveiflast svolítið öfganna á milli. Annars vegar er talað með þeim hætti að það felist í því einhver sérstök brot á einstaklingsbundnum réttindum fólks að grípa til þess að hafa hér eins og hálfs árs — því að þetta er ekki nema eitt og hálft ár — aðlögunartíma fyrir það fólk sem kemur frá Búlgaríu og Rúmeníu inn á vinnumarkað okkar. Eitt og hálft ár er fljótt að líða og ég held að það sé hægt að nýta þetta eina og hálfa ár vel ef þannig er að málum staðið til þess að meta og afla upplýsinga um í hversu miklum mæli líklegt er að fólk frá þessum svæðum sæki hér inn á íslenskan vinnumarkað og þá með hvaða hætti stofnanir samfélagsins þurfi að bregðast við því, bæði með upplýsingagjöf um réttindi og skyldur þessa fólks hér á landi og eins getur þetta gefið stéttarfélögunum heilmikla vitneskju um þá launamenn sem hingað koma á grundvelli þess umsagnarferils sem er núna í lögunum um atvinnuréttindi útlendinga. Ég ítreka að hér er um að ræða eitt og hálft ár.

Það hefur verið spurt: Hvers eiga Rúmenía og Búlgaría að gjalda? Þessi ríki eiga einskis að gjalda. Það er um það að ræða að þessi ríki eru meðhöndluð með nákvæmlega sama hætti og önnur ríki fyrr sem hafa gerst aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði, þau tíu ríki sem gerðust aðilar 2004. Þetta er nákvæmlega sama ferli sem hér er um að ræða.

Það má þá auðvitað líka spyrja þeirrar spurningar: Hvers eiga þá ríkin utan EES að gjalda, hvers á það fólk sem kemur frá ríkjum utan EES að gjalda, því það er auðvitað undir allt annað ferli sett en fólkið sem kemur frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, bæði þeirra sem nú eru inni á svæðinu og þeirra sem þarna eru að bætast við? Það má alveg halda því fram með rökum að það hafi verið gripið til of strangra aðgerða hér á Íslandi gagnvart þriðju ríkjum, þ.e. ríkjum sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins, m.a. vegna þess að menn töldu að íslenskt samfélag ætti nóg með að taka við þeim fjölda sem hingað mundi leita vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins og vegna þeirrar þenslu sem hefur verið á íslenskum vinnumarkaði. Eins og ég gat um áðan er það eitt af því sem Samtök atvinnulífsins kvarta undan að t.d. fyrir sérfróða aðila sem sækja þarf til Asíuríkja, það eru fjölmargir sérfróðir aðilar frá þeim ríkjum sem hafa viljað sækja hingað inn á íslenskan vinnumarkað, þá getur það tekið allt upp í hálft ár fyrir það fólk að fá tilskilin réttindi til þess að geta starfað hér á landi. Það er þá bara mál sem þarf að taka til sérstakrar skoðunar ef mönnum sýnist svo. En ég ítreka að hér er um að ræða eitt og hálft ár og í þessu felst engin mismunun gagnvart því fólki sem kemur frá þessum ríkjum, þetta er nákvæmlega sama ferli og var viðhaft þegar Evrópska efnahagssvæðið var stækkað 2004 og hin tíu nýju ríki urðu aðilar.

Hinn póllinn í þessari umræðu hefur svo verið sá að það væri ástæða til þess að grípa eða a.m.k. gefa það til kynna gagnvart öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins að Ísland kynni að grípa í einhvern neyðarhemil vegna þess hversu lítill þessi vinnumarkaður hér er og vegna mikils fjölda útlendinga sem hingað hafa leitað.

Þá vil ég að það komi hér skýrt fram að 112. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem innifelur hið svokallaða öryggisákvæði, gerir ráð fyrir því að þá og því aðeins sé gripið til slíkra aðgerða að þær séu taldar bráðnauðsynlegar af efnahagslegum, þjóðfélagslegum eða umhverfislegum ástæðum. Það er almennt talið að í slíkum aðstæðum þurfi að gæta meðalhófs í þeim aðgerðum sem gripið er til og það sé ákveðin gagnkvæmni í því fólgin, með öðrum orðum að þau ríki sem við beitum þessu öryggisákvæði gagnvart, sem eru þá önnur ríki Evrópska efnahagssvæðisins, geti þá fyrir sitt leyti líka gripið til gagnkvæmra aðgerða gagnvart Íslandi.

Ég bendi því á að eitthvert meðalhóf þarf að vera í umræðunni hér, við þurfum ekki annaðhvort að nálgast þetta út frá því að nota neyðarheimild eða að opna algjörlega íslenskan vinnumarkað heldur að reyna að finna einhvern milliveg þar á milli. Það sem um er að ræða hér er eitt og hálft ár í aðlögunartíma, tvö ár að forminu til en eitt og hálft ár í raun, sem er nákvæmlega það sama og gert var 2004.

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir nefndi að það hefði verið látið að því liggja eða sagt í fjölmiðlum að til stæði að framlengja þetta til 2014. Ég kannast ekki við að það hafi verið sagt í fjölmiðlum að þetta yrði framlengt til 2014. Til þess hefur engin afstaða verið tekin og það eru engar slíkar fyrirætlanir uppi á þessu stigi. Það verður bara að metast hér af þinginu þegar þar að kemur. Það sem um er að ræða er að þingið samþykki þetta til 2009 og það er þá Alþingis að taka afstöðu til þess hvort þá á að framlengja eða ekki og það er ekki bara stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar að gera það.

Hér kom fram í máli þingmannsins að ekki hefði verið nægilega vel staðið að því að skoða hvað væri í gangi hjá þeim starfsmannaleigum sem hér starfa og þingmaðurinn nefndi sérstaklega kynferðislega áreitni sem viðgengist á vegum einhverra starfsmannaleigna. Nú ætla ég ekki að tjá mig sérstaklega um það, ég hef ekki skoðað það sérstaklega hvernig að því hefur verið staðið, en ég verð hins vegar að biðja þingmanninn að gefa nú nýjum félagsmálaráðherra svolítinn tíma og ráðrúm til þess að setja sig inn í málin og embætti sitt áður en gerðar eru kröfur um að hægt sé að vera með miklar yfirlýsingar um það hvernig hún muni vinna í embættinu og ég held að ég fari rétt með að ráðherrann hafi verið tíu daga í embætti nú þegar þessi umræða fer fram.

Auðvitað er mikilvægt og ég held að við höfum öll haft af því áhyggjur, sérstaklega hér á árunum rétt eftir að Evrópska efnahagssvæðið var stækkað og ríkjunum fjölgað um tíu, þá höfðum við að vissu leyti áhyggjur af því hvernig starfsmannaleigurnar störfuðu og það var auðvitað mikilvægt þegar hér voru sett lög um starfsmannaleigur, þó að við getum haft á því skoðanir hvort það hafi verið nægilega vel að þeirri lagasetningu staðið, þá var það engu að síður mikilvægt skref þegar lögin voru sett um starfsmannaleigurnar. Það má þó segja að aðlögunartíminn þá hafi a.m.k. verið notaður til þess að setja þau lög.

Ég ætla í sjálfu sér ekkert að hafa mikið fleiri orð um þetta. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um málefni útlendinga á Íslandi. Auðvitað er það rétt sem hefur komið fram að fólk sækir hingað vegna þess að hér er þensla á vinnumarkaði en það er líka hitt að fátækt fólk á öllum tímum hefur alltaf verið á faraldsfæti og reynt að sækja sér betri lífskjör. Þetta er ekkert nýtt. Þjóðflutningarnir í Evrópu fyrrum, flutningur fólks frá Evrópu til Vesturheims, Íslendingarnir sem fóru til Vesturheims, Íslendingarnir sem fóru til Svíþjóðar 1968, iðnaðarmennirnir, tugum ef ekki hundruðum saman. Sjálfsagt hafa Svíar þá litið svo á að þeir Íslendingar væru með félagsleg undirboð á sænskum vinnumarkaði. Þeir sóttu þangað, þeir fóru þangað í vinnu, sumir settust þar að, aðrir komu heim. Fólk hefur alltaf verið á faraldsfæti og reynt að sækja sér betri lífskjör og þannig verður það áfram. Við þurfum hins vegar að reyna að sjá til þess að tekið vel sé á móti þessu fólki og íslenskt samfélag sé í stakk búið til þess að búa því þau lífskjör hér á landi sem við sjálf gerum kröfur til og við þurfum að reyna að koma í veg fyrir að félagsleg undirboð tíðkist á íslenskum vinnumarkaði.