134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

viðurkenning Íslands á ríkisstjórn Palestínu.

3. mál
[17:45]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Í þessari tillögu til þingsályktunar er hreyft máli sem hefur alltaf öðru hvoru komið til kasta Alþingis og til umræðu á Alþingi, þ.e. afstöðu þings og þjóðar til þess ástands sem ríkt hefur á hernumdu svæðunum í Palestínu um áratugaskeið. Stundum hefur Alþingi borið gæfu til þess að standa saman í þessu máli, eins og hv. þm. Bjarni Harðarson hvatti til að gert yrði núna, og reynt að ná nokkuð þverpólitískri sátt í þinginu um hvernig við beittum okkur í þessu máli. Þegar ég segi þetta er ég að vísa til þess að ef ég man rétt þá samþykkti Alþingi samhljóða árið 1989 ályktun þess efnis að virða beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar. Nokkrum sinnum hefur Alþingi borið gæfu til þess að gera slíkar samþykktir um utanríkismál. Það hefur alltaf, ég fullyrði það, reynst okkur gott veganesti og haldreipi í umræðu sem annars vill verða ansi átakasöm.

Þetta hefur líka gerst varðandi, ef ég man rétt, kjarnorkuvopn. Meðan mest var deilt um herstöðina og aðildina að NATO gátu menn sammælst um það. Þetta eru ákveðnir staksteinar sem er mikilvægt fyrir okkur að reyna að stikla sameiginlega á ef þess er kostur.

Mín skoðun er sú að myndun þjóðstjórnarinnar í Palestínu hafi verið mikilvægt skref í átt til friðar á þessu svæði og Fatah hafi komið í veg fyrir borgarastyrjöld á heimastjórnarsvæði Palestínumanna. Mahmoud Abbas forseti og forustumenn Palestínumanna tel ég að hafi sýnt mikinn pólitískan kjark þegar þeir undirrituðu Mekka-samkomulagið og komið í veg fyrir miklar blóðsúthellingar sem annars hefðu hugsanlega orðið.

Norðmenn studdu við bakið á því ferli sem leiddi til myndunar þjóðstjórnarinnar og hafa raunar alltaf beitt sér mikið á þessu svæði eins og hér var vitnað til. Óslóar-samkomulagið er kannski órækasti vitnisburðurinn um það.

Þjóðstjórnin í Palestínu er réttkjörin stjórn Palestínumanna og um það er ekki deilt. Það er hins vegar deilt um það hvort hægt sé að eiga samskipti við þjóðstjórn þar sem Hamas-samtökin, sem litið hefur verið á sem hryðjuverkasamtök, eiga aðild að. En þetta eru klárlega rétt kjörin stjórnvöld í þessu landi.

En spurningin snýst kannski ekki um viðurkenningu á ríkisstjórninni heldur um eðlileg samskipti við stjórnina, bæði pólitískt og efnahagslega. Það er það sem norska ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera. Hún hefur orðað það svo að hún hafi ákveðið að normalísera samskipti sín við þjóðstjórnina. Hún hefur þar með sýnt mikilvægt frumkvæði enda hafa Norðmenn leikið stórt hlutverk í deilum ríkja fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir hafa verið mikilvægir milligöngumenn og ætla sér greinilega að vera það áfram á þessu svæði. Þeir bjóða sig í rauninni fram sem milligöngumenn milli stjórnvalda í Ísrael og heimastjórnarsvæðis Palestínumanna, Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það ástand sem nú er í Palestínu. Það er skelfilegt. Allir innviðir samfélagsins eru í rúst, eins og hér kom fram. Fjárframlög, m.a. frá Evrópusambandinu, til heimastjórnar Palestínumanna hafa verið fryst og Ísraelsstjórn hefur lagt hald á skatttekjur palestínskra stjórnvalda og takmarkað eins og við vitum ferðafrelsi palestínskra borgara. Það er gríðarlega mikilvægt að vinna að því að þetta breytist.

Stjórnvöld í Palestínu verða hins vegar líka að standa við sitt, fyrir sitt leyti. Þar komum við einmitt að þeim skilyrðum sem Norðmenn hafa sett, þ.e. þeir gera ekki fyrirframskilyrði en þeir gera kröfu til palestínskra stjórnvalda um að þau taki afstöðu gegn hryðjuverkum og viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis. En það er ekki forsenda fyrir því að taka upp eðlileg samskipti við þjóðstjórnina.

Virðulegur forseti. Ég tel mikilvægt að vinna að því að koma á eðlilegum samskiptum við þjóðstjórnina. Ég teldi mikinn feng að því ef væri hægt að ná um það þverpólitískri samstöðu á þingi, hvernig að því er staðið. Ég vil líka að það komi fram að ég mun þann 20. júní hitta norska utanríkisráðherrann til að fara m.a. yfir þessi mál með honum og reyna að átta mig á því hvernig við Íslendingar getum komið að málum.

Þá hef ég sett af stað undirbúning fyrir heimsókn mína á þessi svæði til að kynna mér betur hvernig við getum orðið að liði í þessum heimshluta. Það er í samræmi við það sem segir í stjórnarsáttmálanum þar sem ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún vilji leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi.

Ég hyggst, eins og ég segi, annars vegar ræða málið við norska utanríkisráðherrann og hins vegar skipuleggja ferð til þessara svæða til að kynna mér hvernig íslensk stjórnvöld geti beitt sér í þágu friðar og mannréttinda á þessu svæði. Ég vil gjarnan reyna að vinna að því að koma á eðlilegum samskiptum við þjóðstjórnina í Palestínu og mundi óska eftir því, ef það er fært, að þingið kæmi sér saman um ályktun í því efni. Það verður auðvitað verkefni utanríkismálanefndar að takast á við það verkefni.