134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

viðurkenning Íslands á ríkisstjórn Palestínu.

3. mál
[18:04]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að bregðast aðeins við þessari ræðu hv. þm. Árna Johnsens, sérstaklega vegna þess að hann sagði í lokin að við Íslendingar breyttum ekki gangi heimsmála. Mér finnst koma fram í þessu svolítill misskilningur eða ég er a.m.k. ekki sammála því að við eigum ekki að láta okkur mál varða sem snúa að heimsmálunum vegna þess að dropinn holar steininn og hvað varðar þessa tillögu sem hér er flutt þá er ég fylgjandi henni og eins og kom fram áður í umræðunni þá mótaði ég þá stefnu eða það er kannski of mikið að segja að ég hafi mótað þá stefnu heldur tjáði ég mig sem utanríkisráðherra fylgjandi því að við tækjum upp eðlileg samskipti við hina nýju þjóðstjórn í Palestínu. Það er mjög í samræmi við það sem Norðmenn hafa gert.

Ég sat fund Atlantshafsbandalagsríkja í lok apríl í Ósló þar sem utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Störe, stjórnaði óformlegri umræðu um þessi mál og það var mjög athyglisvert hvað utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsríkjanna voru mikið að velta því fyrir sér hvort ekki væri hægt að nýta þær breytingar sem hefðu orðið í Palestínu með hinni nýju þjóðstjórn til að taka upp samskipti við Palestínu. Það verður ekki komið á friði öðruvísi en að talað sé saman. Þetta getur verið leið. Vissulega er margt rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns um að ástandið er erfitt en það að taka upp samskipti við þessa stjórn er að mínu mati mjög áhugavert og getur skipt máli.