134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:39]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra þar sem lagt er til að atvinnutekjur þeirra sem eru orðnir 70 ára og eldri og njóta lífeyris frá almannatryggingum hafi hvorki áhrif á upphæð lífeyris almannatrygginga lífeyrisþega né maka hans. Verði lögin samþykkt taka þau gildi um næstu mánaðamót, 1. júlí nk.

Með þessu er tekið enn eitt stórt skref til að minnka tekjutengingar vegna eigin tekna og tekna maka á lífeyri almannatrygginga. Málefni eldri borgara voru í brennidepli í kosningabaráttunni til Alþingis sem er nú nýafstaðin og með sanni má segja að allir stjórnmálaflokkar hafi lagt áherslu á að koma með tillögu til að bæta hag og stöðu eldri borgara.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var í aprílmánuði sl. í aðdraganda kosninganna kynnti formaður Sjálfstæðisflokksins áherslur flokksins um hvernig hann vildi bæta fjárhagslegan hag eldri borgara fengi flokkurinn stuðning til áframhaldandi setu í ríkisstjórn eftir kosningar. Þessar áherslur voru í þremur liðum og þeirra má sjá stað í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar frá 27. maí sl. Allir þessir þrír liðir voru mótaðir af nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á fundum sem voru haldnir með fulltrúum frá Landssambandi eldri borgara síðla vetrar. Í fyrsta lagi er sá þáttur sem frumvarp það sem hér er til umræðu tekur til sem er afnám tekjutenginga launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga. Frumvarpið gerir ráð fyrir að atvinnutekjur ellilífeyrisþega og vistmanna 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á fjárhæð ellilífeyris, tekjutryggingar, vasapeninga og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá munu atvinnutekjur vistmanna 70 ára og eldri ekki hafa áhrif á greiðsluþátttöku þeirra í dvalarkostnaði á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Gert er ráð fyrir að atvinnutekjur maka hafi ekki áhrif á upphæð lífeyris almannatrygginga hjá hinum makanum eins og kemur fram í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á frumvarpinu. Eftir gildistöku laganna um næstu mánaðamót munu því ellilífeyrisþegar 70 ára og eldri geta aflað sér atvinnutekna að vild án þess að það hafi nokkur áhrif á eigin lífeyri almannatrygginga eða maka hans.

Um 21 þús. manns í þessum aldurshópi, 70 ára og eldri, fá lífeyri frá almannatryggingum. Ekki liggja hins vegar fyrir upplýsingar um hversu stór hluti þeirra hefur atvinnutekjur í dag en fjárlagaskrifstofan áætlar að kostnaður ríkisins vegna þessara breytinga verði á bilinu 560–700 millj. kr. á ári. Það er einnig erfitt að meta hve margir þeir eru sem nú þegar hafa náð 70 ára aldri og hafa ekki sótt um lífeyri frá almannatryggingum og hve margir munu fara að vinna í kjölfar þessara breytinga. Að sama skapi er nær ómögulegt að meta hve margir fara í launaða vinnu við þessar breytingar og skila auknum skatttekjum til ríkissjóðs á móti. Það er hins vegar ljóst að þessar breytingar eru til þess fallnar að hafa góð áhrif á hag eldri borgara með bættum kjörum og aukinni virkni í samfélaginu hjá þeim sem hafa vilja og getu til að stunda launuð störf eftir 70 ára aldur. Jafnframt er ljóst að aukin atvinnuþátttaka getur haft jákvæð áhrif bæði á líkamlega og andlega heilsu þessa aldurshóps.

Aukin atvinnuþátttaka eldri borgara getur einnig vegið upp á móti vinnuaflsskorti sem er hér á landi, t.d. í þjónustustörfum, en ýmis fyrirtæki hafa séð sér hag í að auglýsa eftir eldri borgurum til starfa og sækjast eftir að nýta þekkingu þeirra og reynslu í störfum innan sinna raða.

Aðrir þættir í tillögum Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar sem hafa ratað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varða atriði um hvernig bæta eigi hag þeirra ellilífeyrisþega sem verst eru settir og um minnkun tekjutenginga í almannatryggingakerfinu. Þannig lagði Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á það í kosningabaráttunni að tryggja þeim ellilífeyrisþegum sem verst eru settir að lágmarki 25 þús. kr. tekjur úr lífeyrissjóði til hliðar við lífeyri almannatrygginga. Þeir sem hafa engan eða lítinn rétt á greiðslum úr lífeyrissjóðum og litlar aðrar tekjur eru sá hópur aldraðra sem telja má að séu verst settir. Þetta eru t.d. þeir sem hafa verið öryrkjar og ekki verið á vinnumarkaði, konur sem hafa aflað sér lítils réttar með launavinnu utan heimilis og þeir sem af einhverjum ástæðum hafa ekki greitt lögbundin iðgjöld til lífeyrissjóðanna. Frumvarp þessa efnis um 25 þús. kr. greiðslur úr lífeyrissjóðum verður lagt fram á haustþingi eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu.

Um þriðjungur ellilífeyrisþega er í þeirri stöðu að réttur þeirra í lífeyrissjóði er undir 25 þús. kr. á mánuði og mun sá þriðjungur aldraðra njóta þessara aðgerða en þó í mismunandi mæli. Þetta þýðir að lágmarkstekjur sem stjórnvöld tryggja einstaklingum verða 140 þús. kr. á mánuði í stað rúmlega 126 þús. kr. í dag sem er óskiptur lífeyrir almannatrygginga. Lágmarkstekjur hjóna hækka úr 207 þús. í um 240 þús. kr. á mánuði og þá er við það miðað að þau hafi engar aðrar tekjur. Þetta eru lágmarkstekjur og þau þurfa fullkomlega að treysta á tekjur frá almannatryggingakerfinu. Með þessum breytingum munu jafnframt vasapeningar þeirra sem eru á stofnunum og hafa engar aðrar tekjur hækka um rúm 50%, úr 28.600 í 43.600 þegar allt er talið.

Í þriðja lagi lagði Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að lækka skerðingarhlutfall lífeyris almannatrygginga vegna annarra tekna. Skerðingarhlutfall lífeyris almannatrygginga vegna annarra tekna var á árinu 2003 lækkað úr 67% í 45% og síðan aftur í tæp 40% um síðustu áramót og á að lækka í 38,5% um næstu áramót samkvæmt breytingum á lögum um almannatryggingar sem samþykkt voru á Alþingi í desember sl. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að þetta hlutfall fari niður í 35% og gerist það á kjörtímabilinu.

Fyrir 2003 voru tekjutengingar við lífeyri almannatrygginga með þeim hætti að hverjar 10 þús. kr. tekjur úr lífeyrissjóði eða vegna atvinnu viðkomandi lækkuðu lífeyri almannatrygginga um 6.700 kr. Fari hlutfallið í 35% munu hverjar 10 þús. kr. tekjur úr lífeyrissjóði — en ekki atvinnutekjur því að þær eru núna teknar út fyrir sviga — hafa áhrif til skerðingar á lífeyri almannatrygginga um 3.500 kr. Þetta er stór áfangi. Þannig hafa stór skref verið tekin á undanförnum missirum í átt að því að minnka tekjutengingar lífeyris almannatrygginga við eigin tekjur og tekjur maka.

Um síðustu áramót var tekjutenging milli hjóna minnkuð verulega og um næstu áramót munu lífeyrissjóðstekjur maka ekki hafa nein áhrif á upphaf lífeyris almannatrygginga hins makans. Fullt afnám tekjutengingar á lífeyrissjóðsgreiðslur maka um næstu áramót og afnám tekjutenginga lífeyris almannatrygginga við atvinnutekjur sem kemur til framkvæmda um næstu mánaðamót, verði það frumvarp sem nú er til umfjöllunar samþykkt, þýðir að hvorki lífeyrissjóðstekjur maka né atvinnutekjur þeirra sem eru orðnir 70 ára munu hafa áhrif á lífeyri almannatrygginga hins makans. Einungis fjármagnstekjur maka hafa áhrif á lífeyri almannatrygginga hins makans eftir það. Þetta hefur verið mikið baráttumál eldri borgara, ekki síst kvenna því að tekjutengingar lífeyris almannatrygginga milli hjóna hafa yfirleitt leitt til meiri skerðingar á lífeyri kvenna en karla þar sem karlar hafa að öllu jöfnu bæði meiri rétt í lífeyrissjóðum og oft meiri atvinnutekjur sem hefur þá haft áhrif til skerðingar á lífeyri kvenna í almannatryggingum. Þetta hefur valdið sérstakri óánægju meðal eldri kvenna.

Þessar breytingar þýða einnig, sem er líka mikilvægt, að grunnlífeyrir verður alfarið óháður greiðslum úr lífeyrissjóðum og atvinnutekjum eftir 70 ára aldur. Grunnlífeyrir er í dag óháður tekjum úr lífeyrissjóði en eftir 70 ára aldur munu atvinnutekjur ekki heldur hafa áhrif á grunnlífeyri. Þetta er mikil breyting. Jafnframt munu þessar hugmyndir þegar þær eru komnar að fullu til framkvæmda einfalda verulega almannatryggingakerfið því að færri þættir hafa áhrif á útreikninga og upphæð lífeyris almannatrygginga en áður. Jafnframt vil ég benda á það atriði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 27. maí sl. að skoðað verði hvort undanskilja megi hluta af lífeyrissjóðstekjum eldri borgara skerðingunni í almannatryggingakerfinu. Ekki liggur fyrir hvernig þetta verður útfært.

Virðulegur forseti. Á síðustu árum hafa eldri borgarar myndað sterka rödd og öflugt þrýstiafl í að koma áherslumálum sínum á framfæri við stjórnvöld og stjórnmálaflokka. Þetta hefur markað stjórnmálaumræðu síðustu ára. Það hefur einnig orðið til þeirrar jákvæðu þróunar að stjórnvöld og talsmenn eldri borgara undir hatti Landssambands eldri borgara hafa haft með sér formlegan samráðsvettvang á undanförnum árum. Þetta samstarf hefur borið ávöxt í formi þess að gert hefur verið samkomulag milli þessara aðila um bættan hag eldri borgara sem snúa bæði að kjörum aldraðra og aðbúnaði þeirra þegar heilsa og geta til sjálfsbjargar brestur. Þannig var gert samkomulag á árinu 2002 sem m.a. tók til hækkunar tekjutryggingar og tekjutryggingarauka. Þá var skerðingarhlutfall lífeyris almannatrygginga vegna annarra tekna lífeyrisþega lækkað úr 67% í 45%. Áður hafði verulega dregið úr tekjutengingu milli maka lífeyrisþega í kjölfar öryrkjadómsins svokallaða en stjórnvöld ákváðu að niðurstaða Hæstaréttar í hinum svokallaða öryrkjadómi tæki einnig til aldraðra. Með því var ákveðinn sjálfstæður réttur lífeyrisþega óháður tekjum maka.

Önnur atriði í samkomulagi milli Landssambands eldri borgara og ríkisstjórnarinnar frá árinu 2002 vörðuðu m.a. ráðstafanir til að auka heimahjúkrun og stuðning við aldraða við að búa lengur heima hjá sér, m.a. með því að fjölga úrræðum vegna dagvistunar og hvíldarinnlagna. Þá tók samkomulagið einnig til fjölgunar hjúkrunarrýma til nýtingar Framkvæmdasjóðs aldraðra og um sveigjanleg starfslok. Þessi atriði gengu öll eftir. Meginþungi í samkomulaginu frá árinu 2002 varðaði því hækkun tekjutryggingar og tekjutryggingarauka, minni tekjutengingar við lífeyri almannatrygginga og síðast en ekki síst eflingu þjónustu við aldraða.

Í júlí á síðasta ári var á ný undirritað samkomulag við Landssamband eldri borgara þar sem tekið var á ýmsum áherslum í málflutningi þeirra á missirunum þar á undan. Megináherslan í því samkomulagi var á kjör aldraðra, þ.e. að hækka lífeyri almannatrygginga og minnka áhrif eigin tekna og tekna maka á lífeyri almannatrygginga og síðast en ekki síst að afnema áhrif tekna maka á lífeyrissjóðina og lífeyri almannatrygginga hjá hinum makanum. Í umfjöllun Alþingis síðasta haust var reyndar gengið enn lengra en samkomulag milli Landssambands eldri borgara og ríkisstjórnarinnar frá síðasta sumri gerði ráð fyrir. Þannig var gildistíma ýmissa ákvæða samkomulagsins flýtt verulega og ýmsum atriðum breytt til bóta fyrir aldraða og reyndar einnig öryrkja. Þessar breytingar komu til framkvæmda við síðustu áramót eins og áður getur og munu taka að fullu gildi um næstu áramót. Þessar breytingar hafa þegar haft víðtæk áhrif á kjör eldri borgara og ekki síst konur. Réttur kvenna, eins og ég hef sagt hér áður, sem eru komnar á efri ár og fá greitt úr lífeyrissjóði er að öllu jöfnu lakari en maka þeirra. Það ræðst ekki síst af því að atvinnuþátttaka kvenna hefur í gegnum tíðina verið mun minni en karla. Tíðarandinn var sá að konur voru í meira mæli heimavinnandi, komu seinna út á vinnumarkaðinn, gerðu hlé á vinnu utan heimilis vegna barneigna eða unnu hlutavinnu. Þetta leiðir til þess að réttur kvenna til lífeyris úr lífeyrissjóðum er almennt lakari en hjá körlum.

Fram til síðustu áramóta var helmingur af lífeyrissjóðstekjum maka talinn til tekna hins makans. Frá síðustu áramótum hefur einungis 25% af lífeyrissjóðstekjum maka verið talið til tekna hins makans og um næstu áramót falla niður tengingar lífeyris almannatrygginga við lífeyrissjóðstekjur hins makans. Í kjölfar þessara breytinga hækkaði lífeyrir almannatrygginga, ekki síst hjá konum og af þeirri ástæðu sem ég hef áður getið.

Annar þáttur í samkomulaginu frá því í júlí í fyrra varðaði lækkun skerðingarhlutfalls tekna úr 45% í 38,5%. Jafnframt var ákveðið frítekjumark vegna eigin tekna að upphæð 300 þús. kr. á ári eða 60% af atvinnutekjum eftir því hvort var hagstæðara. Hugmyndin með frítekjumarki vegna atvinnutekna var að hvetja eldra fólk sem á þess kost og hefur hug á að afla sér tekna með atvinnu til að bæta hag sinn og heilsu án þess að það hafi of mikil áhrif á rétt þess til lífeyris almannatrygginga. Það frumvarp sem við erum nú með til umfjöllunar gengur enn lengra í þá veru með fullkomnu afnámi á þessum tryggingum.

Önnur atriði í samkomulagi við eldri borgara frá síðasta sumri vörðuðu hækkun vasapeninga um 25% og heimild til að dreifa eigin tekjum sem stafa af fjármagnstekjum og séreignarlífeyrissparnaði sem er leystur út á einu ári í stað allt að 10 ára samkvæmt óskum lífeyrisþega. Þá fól samkomulagið í sér mikilvægt ákvæði um sveigjanleg starfslok og möguleika á hækkun lífeyrisgreiðslna úr almannatryggingum um 0,5% á mánuði, þ.e. 6% á ári, fyrir hvert ár umfram 67 ára aldur sem lífeyristöku er frestað. Með því á einstaklingur að geta aukið rétt sinn til lífeyris í almannatryggingakerfinu um allt að 30% ef hann frestar lífeyristöku til 72 ára aldurs.

Varðandi þjónustu við aldraða var áhersla lögð á að auka þjónustu við þá með því að færa áherslu eins og stofnanaþjónustu með stóraukinni heimaþjónustu, með auknu fjármagni til uppbyggingar öldrunarstofnana, m.a. með byggingu 400 hjúkrunarrýma á næstu árum. Auk þess var lögð áhersla á fullnægjandi framboð þjónustu og öryggis íbúa. Það sem einkenndi samkomulagið frá síðasta sumri má segja að hafi verið fyrst og fremst áhersla á minni tekjutengingar milli maka og minni skerðingar vegna eigin atvinnutekna og lífeyrissjóðstekna. Þannig gagnaðist það fyrst og fremst hjóna- og sambúðarfólki og þeim sem hafa einhverjar aðrar tekjur en tekjur frá almannatryggingakerfinu. Aldraðir eru hins vegar ekki einsleitur hópur og aðstaða þeirra, vilji og geta er eins mismunandi og þeir eru margir. Áhersluatriðin eru því margvísleg og snerta hvern einstakling og hver hjón eða sambúðarfólk með mismunandi hætti. Þess bera baráttumál eldri borgara merki en þess má líka geta að mörg þeirra hafa náð fram að ganga á síðustu missirum.

Um langt skeið bentu t.d. eldri borgarar á óréttmæti þess að greiða eignarskatt af skuldlausu eða skuldlitlu eigin húsnæði. Þess er skemmst að minnast að eignarskattur var aflagður á síðasta kjörtímabili. Eldri borgarar hafa í málflutningi sínum lagt áherslu á auknar ráðstöfunartekjur með hækkun lífeyris almannatrygginga og hækkun skattleysismarka. Á síðasta kjörtímabili var tekjuskattur lækkaður um 3%, virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður verulega og skattleysismörk hækkuð. Eldri borgarar hafa lagt áherslu á að minnka tekjutengingar lífeyris almannatrygginga við eigin tekjur úr lífeyrissjóði, við atvinnutekjur og tekjur maka. Jafnframt hafa þeir lagt áherslu á að bæta hag þeirra sem hafa minnstar tekjur en þeir hafa aflað sér minnsts réttar úr lífeyrissjóðum. Með þeim breytingum sem gerðar voru á almannatryggingalögum í desember sl., og fyrr eins og ég hef áður nefnt í ræðu minni, og þeim hugmyndum sem koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er komið verulega til móts við þessar hugmyndir.

Í kosningabaráttunni til Alþingis nú nýverið lögðu allir stjórnmálaflokkar áherslu á að styrkja stöðu og bæta hag aldraðra og öryrkja. Með þeirri niðurstöðu sem hér hefur verið til umræðu og að viðbættum þeim atriðum sem þegar hafa verið lögfest má segja að tekist hafi að koma til móts við stærri hópa aldraðra með ólíkar þarfir, ólíka hagsmuni og mismunandi aðstæður. Það er vel og því fagna ég því skrefi sem tekið er í dag með því að undanþiggja atvinnutekjur 70 ára og eldri áhrifum við lífeyri almannatrygginga.