134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

orkusala til álvers í Helguvík.

[10:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað eðlilegt að Samfylkingarþingmenn og hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar kveinki sér undan þessari umræðu. Það er fullkomlega eðlilegt.

En við heyrðum hvað hæstv. iðnaðarráðherra sagði hér. Það verður ekki farið inn á óröskuð háhitasvæði nema með samþykki Alþingis. Og hvernig hefur þessi meiri hluti nú þegar beitt sér hér í sölum Alþingis? Hann hefur beitt meirihlutavaldi sínu þvert ofan í lýðræðislega hefð hér á Alþingi Íslendinga varðandi lagabreytingar.

Þannig að við vitum þá hverju við eigum von á frá þessum meiri hluta varðandi háhitasvæðin, hann á eftir að keyra hér í gegn tillögur um að þessir orkusölusamningar nái fram að ganga með óbilgirni og ofbeldi. Það er það sem í vændum er frá hæstv. ríkisstjórn ef marka má orð hæstv. iðnaðarráðherra. Hins vegar var hæstv. umhverfisráðherra auðvitað hófstilltari í yfirlýsingum sínum. Ég kann auðvitað betur við tón hæstv. umhverfisráðherra í þessu máli en þeirra kumpána, hæstv. iðnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra.

Hæstv. heilbrigðisráðherra kann nú ekki einu sinni fyrstu lexíuna í bókinni um sjálfbæra þróun. Hann veit það sem sagt ekki að það eru einungis 10–15% varmans sem upp kemur úr jörðinni sem hægt er að nýta til raforkuframleiðslu, ef niðurdælingin heppnast þegar ekki er verið að virkja fyrir hitaveitu jafnframt. Þá má segja að að hluta til sé virkjunin sjálfbær, kannski í 40 ár. En svo þarf að hvíla hana í 40 ár. Þetta þarf hæstv. heilbrigðisráðherra, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur auðvitað að vita og er skammarlegt að hann skuli ekki vita það.

En hæstv. umhverfisráðherra sagði hér að það væri ekki ávísun á að af framkvæmdum yrði að þessi orkusölusamningur skyldi hafa verið undirritaður. Við skulum vona að hæstv. umhverfisráðherra geti beitt sér og sínu afli innan ríkisstjórnarinnar til þess að það verði ekki reist álver í Helguvík sem þarf 600 megavött af orku. Því með því verða háhitasvæðin, þar með talin Brennisteinsfjöllin sem Samfylkingin ætlaði sér að vernda, farin í þágu stóriðju, á altari stóriðjunnar. Ég vona að við endum ekki uppi (Forseti hringir.) með slíka ákvörðun.