134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:24]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hann heyrir hann Jóhannes þegar hann vill heyra, hefði móðir mín heitin sagt. Hæstv. iðnaðarráðherra heyrir bara það sem hann vill heyra í þessu máli.

Ég tel að það sem hann vitnar m.a. í orð formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var þar fyrst og fremst verið að spyrja þeirrar spurningar af blaðamanni í eftirfarandi samhengi: Mun Vinstri hreyfingin – grænt framboð setja einhver fyrirframskilyrði, „ultimatum“, í viðræðum við aðra flokka? Hann svaraði því: Nei, við munum ekki setja fyrir fram nein skilyrði, ekki að því er varðar þetta mál heldur.

Að sjálfsögðu var það auðvitað öllum ljóst að það voru ákveðin mál sem við mundum sækja mjög fast ef við hefðum lent í þeirri aðstöðu að ræða við aðra flokka og síðan hefðum við þá metið það þegar upp var staðið hvort það væri ásættanlegt eða ekki frá sjónarmiði okkar.

Hér er því um fullkominn útúrsnúning að ræða hjá hæstv. iðnaðarráðherra og mér finnst að hann eigi að vanda sig í störfum sínum á hv. Alþingi þegar hann hlustar á það sem aðrir hafa að segja.