134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[17:28]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér var nokkuð brugðið við þennan málflutning hv. 4. þm. Norðaust., Steingríms J. Sigfússonar. Hér dynja svikabrigslin á Samfylkingunni og hátt reitt til höggs. Eftir stendur að Steingrímur J. Sigfússon er ekki yfir það hafinn að taka praktíska afstöðu til umhverfismála frekar en aðrir þó að hann tali alltaf eins og trúboði þegar langt er í næstu kosningar en breytist síðan í praktískan stjórnmálamann nokkrum dögum fyrir kosningar. Það liggur fyrir að þingmaðurinn var kominn á slíka brunaútsölu með sitt stóriðjustopp að það var orðið bara til þriggja ára í vikunni fyrir kosningar. Það liggur líka fyrir að hann gerir því skóna að það sé allt í lagi að virkjunaráform fyrir Helguvíkurálver haldi áfram, þau þeirra sem þegar hafði verið veitt leyfi fyrir.

Svo kemur hann hér og segir að það sé algjörlega sjálfgefið að hæstv. iðnaðarráðherra afturkalli leyfi sem þegar hafa verið gefin fyrir Gjástykki. Hvar er samræmið í málflutningnum, hv. þingmaður? Hvar er samræmið? Það liggur fyrir að leyfið hefur verið veitt. Það liggur fyrir að það fyrirtæki sem hefur fengið leyfi hefur öðlast lögmætar væntingar til þess að fá að nýta það leyfi. Það liggur allt fyrir. Þetta er ekki málflutningur sem er samboðinn hv. þingmanni. Ef hann á annað borð viðurkennir þá meginreglu að aðgerðir til að vinda ofan af stóriðjustefnunni ættu að takmarkast við það sem ekki hefði þegar verið veitt leyfi fyrir, á hann að vera samkvæmur sjálfum sér og setja ekki fram svona fráleitan málflutning eins og varðandi Gjástykki áðan.