134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[18:12]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna tillögu til þingsályktunar sem hér er til umræðu.

Umræða um náttúruvernd og náttúrunýtingu hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Er það vel því að færa má fyrir því rök að fáar þjóðir hafi jafnmikla hagsmuni af því að finna jafnvægi á milli þess að vernda náttúru og náttúruauðlindir annars vegar og nýta þær hins vegar þjóðinni allri til hagsbóta.

Nýting og verndun eru hugtök sem verða ekki í sundur skilin. Þau haldast hönd í hönd og öll umræða um umhverfismál og náttúruvernd hlýtur að markast af þeirri hugsun. Jafnvægislistin felst í því að ná að sameina efnahagslegar þarfir okkar og vernd náttúrunnar til þess að tryggt sé að komandi kynslóðir fái notið sambærilegra lífskjara og við. Við viljum hafa hér nægan hagvöxt til þess að geta byggt skóla, sjúkrahús, öldrunarstofnanir, vegi, hafnir og allt það sem nútímasamfélag telur nauðsynlegt en um leið skila landinu til næstu kynslóðar í sem bestu ásigkomulagi.

Frú forseti. Þingsályktunartillagan skiptist í tvennt. Annars vegar snýr hún að því að fallið verði frá áformum um Norðlingaölduveitu og einnig er lagt til að ekki verði ráðist í neinar frekari virkjanaframkvæmdir við Þjórsá. Hvað fyrri liðinn varðar vil ég benda á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var sérstaklega kveðið á um að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna. Þannig birtist með skýrum hætti sá vilji ríkisstjórnarflokkanna að vernda hina sérstöku náttúru Þjórsárvera. Jafnframt liggur það fyrir að á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar verður ekki ráðist í Norðlingölduveitu hvað sem líður þeim heimildum sem Landsvirkjun hefur til framkvæmda. Ætti þetta að róa hjarta hv. þingmanns sem hér talaði áðan, að hluta til í það minnsta.

Vilji þeirra flokka sem mynduðu ríkisstjórnina er skýr í þessu máli og stjórn Landsvirkjunar sækir umboð sitt til fjármálaráðherra. Einnig er rétt að minna á að stjórn Landsvirkjunar hefur samþykkt að leggja til hliðar öll áform um Norðlingaölduveitu, en ríkastur er þó vilji stjórnarflokkanna. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega kveðið á um að lokið verði við rannsóknir á verndargildi og nýtingu náttúrusvæða og að þeirri vinnu verði lokið fyrir lok ársins 2009 og verður sú rammaáætlun sem þannig verður til lögð fyrir Alþingi. Að sjálfsögðu nær sú vinna til Þjórsárvera og einstakrar náttúru þeirra. Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt má fullyrða að ekki er ástæða til að óttast að hlaupið verði af stað í framkvæmdir við Norðlingaöldu.

Hvað varðar síðari hluta þingsályktunartillögunnar, frú forseti, er rétt að hafa í huga að þessir virkjanakostir eru sennilega þeir hagkvæmustu sem fyrirfinnast þegar horft er til umhverfisáhrifa. Um þá skoðun ættu flestir að geta verið sammála þó að vissulega sé rétt að gera ráð fyrir því að mat manna á þessum málum kunni að breytast með breyttum tíðaranda.

Ég er þeirrar skoðunar að ef við komumst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að byggja rennslisvirkjanirnar í neðri hluta Þjórsár vegna þess rasks sem verður á umhverfinu séum við komin að þeirri niðurstöðu að engar frekari vatnsaflsvirkjanir verði byggðar á Íslandi. Það er mitt mat að með þeirri kröfu að ekki verði nýttir þeir virkjanakostir sem í neðri Þjórsá eru sé verið að ganga gegn þeirri meginhugsun að saman verði að fara nýting landsins annars vegar og verndun hins vegar. Það rask sem fyrirsjáanlegt er að mati þeirra sem gerst þekkja til mun ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum og auðvitað þýðir það ekki að allir verði sáttir við þessar framkvæmdir ef af þeim verður. En þótt sitt sýnist hverjum verðum við að reyna að ná sátt um þann mælikvarða sem við notum, hið opinbera mat á umhverfisáhrifum og allt það ferli sem að baki því stendur.

Eins og áður sagði hefur nú þegar farið fram mat á umhverfisáhrifum og búið er að bjóða út hönnun þeirra mannvirkja sem fyrirhugað er að reisa vegna virkjananna í neðri Þjórsá. Ég tel því óráðlegt að breyta þeim reglum sem gilda um allt það ferli og fyrirhugaðar framkvæmdir yfirleitt. En ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að ráðast í breytingar á því laga- og regluverki sem við búum við í virkjanamálum. Það var um margt nauðsynlegt að við tækjumst á um þessa hluti. Rökræðan skerpir og skýrir og samfélagið hafði gagn af þeirri miklu umræðu sem átti sér stað t.d. um Kárahnjúkavirkjun og álverið í Straumsvík. En því er ekki að neita að stundum var of fast tekist á, stundum gengu átökin úr hófi fram og breyttust úr rökræðu í heiftúðuga flokkadrætti þar sem sundurlyndisfjandinn söng allar raddir í tiltölulega vanstilltum kór.

Frú forseti. Ég vil því vekja athygli þingheims og sérstaklega iðnaðarráðherra á nokkrum hugmyndum (Gripið fram í.) sem ég tel að gætu nýst til þess að draga — já, það er kominn annar forseti — úr þeim deilum sem fyrirsjáanlegt er að spretti upp vegna virkjana, hvort heldur sem er vatnsaflsvirkjana eða gufuaflsvirkjana.

Í fyrsta lagi tel ég að kanna eigi hvort ekki sé rétt að breyta lögum þannig að þær heimildir sem iðnaðarráðherra hefur til að grípa til eignarnáms, náist ekki samkomulag við eigendur þeirra jarða sem verða fyrir áhrifum vegna virkjanaframkvæmda, verði þrengdar verulega. Það er skoðun mín að einungis brýnir almannahagsmunir geti leitt til þess að jafnrík réttindi og eignarhald manna á jörðum sínum séu afnumin. Dugar þá ekki að mínu mati að vísa til þess að um sé að ræða óvenju stór viðskipti á milli tveggja aðila, þ.e. orkusalans og orkukaupans.

Það er nú svo að reglulega eru gerð í samfélagi okkar viðskipti sem nema tugum og aftur tugum milljóna króna og engum þætti verjandi að slík viðskipti hvíldu á því að ráðherra gæti með valdi tekið eignir manna eignarnámi, manna sem hvergi hafa komið nálægt viðskiptunum, ekki til þeirra stofnað eða óskað eftir því að þau færu fram. Ef eigandi jarðar vill ekki láta lönd sín undir vatn þá á ekki að vera hægt að þvinga viðkomandi til þess að láta af hendi eigur sínar, jafnvel þó sanngjarnt verð sé talið koma fyrir. Jafnframt tel ég, herra forseti, að ef koma á til þess að heimildum um eignarnám sé beitt eigi að taka slíka ákvörðun á Alþingi en ekki af framkvæmdarvaldinu.

Í öðru lagi vil ég, herra forseti, vekja athygli hæstvirtra ráðherra á því að það er í hæsta máta umdeilanlegt að veitt sé ríkisábyrgð á lántöku vegna framkvæmda þar sem um er að ræða orkuvinnslu og -sölu fyrir einn einstakan stóran notanda. Miklu eðlilegra er að um slíkar framkvæmdir sé stofnað sérstakt fyrirtæki með eigin efnahagsreikning sem njóti ekki ríkisábyrgðar. Að öllu jöfnu leiðir ríkisábyrgð til lægri lántökukostnaðar og þar með til lægri ávöxtunarkröfu orkusalans, sem aftur þýðir aukna hættu á því að það verð sem samið er um í orkusamningum endurspegli ekki nægjanlega þá áhættu sem framkvæmdinni fylgir.

Í þriðja lagi, herra forseti, vil ég vekja athygli þeirra hæstv. ráðherra sem málið varðar á því að nauðsynlegt er að leggja mat á verðmæti þeirra vatnsréttinda sem eru í eigu ríkisins. Þessi réttindi eru verðmæt og nauðsynlegt að sannvirði þeirra komi fram í endanlegu raforkuverði.

Herra forseti. Ég met það svo að ef þær breytingar yrðu gerðar sem ég hef hér rakið mundi fást og nást betra mat á þeim verðmætum sem fórna þyrfti ef til virkjanaframkvæmda kæmi. Þar með yrði dregið úr þeim átökum sem snúa að því hvort nægjanlegt verð fáist fyrir þau náttúruverðmæti sem við gefum frá okkur í þeim tilvikum þar sem við ákveðum að virkja.