134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[19:25]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Leiðin til þess að koma í veg fyrir virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár er einföld. Ég bendi hv. þingmanni á það að Landsvirkjun er í almannaeigu. Landsvirkjun lýtur enn boðvaldi okkar hér, þjóðkjörinna fulltrúa, alþingismanna á Alþingi Íslendinga. Það mundi í sjálfu sér nægja að héðan kæmu skilaboð (Gripið fram í.) til Landsvirkjunar um að það ætti að hætta við Norðlingaölduveitu eða það ætti að hætta við virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Enn þá höfum við, þessi samkoma hér, boðvald yfir Landsvirkjun. Hið sama gildir um önnur fyrirtæki í almannaeigu.

Við skulum ekki gleyma því sem mér finnst hafa gleymst í umræðunni í dag að við erum að tala um fyrirtæki í almannaeigu. Hvað þýðir það? Fyrirtæki sem þjóðin á sameiginlega. Þjóðin þarf að koma sér saman um það hvort hún vill að það sé haldið áfram á þessari braut stóriðjustefnu eða ekki. Hún taldi sig vera að kjósa sig frá stóriðjustefnunni að miklu leyti í þessum kosningum. Það sést á velgengni okkar vinstri grænna og reyndar því fylgi sem Samfylkingin fékk. Auðvitað töldu kjósendur Samfylkingarinnar að þeir væru að kjósa sig frá stóriðjustefnunni.

Það er alveg ljóst að þjóðin hefur þetta vald í höndum sínum og við sem þjóðkjörnir fulltrúar hennar getum ákveðið með þessari þingsályktunartillögu hvað verður í Þjórsá, hvort það verður hætt við Norðlingaölduveitu og hvort það verður hætt við virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Hvort tveggja getum við gert, við höfum það í hendi okkar, hv. þingmaður.