134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:23]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður átti heiður að því sem hæstv. heilbrigðisráðherra að minnka tekjutengingar í nóvember og desember sl. allverulega þar sem 60% af tekjum aldraðra koma til skerðingar en ekki 100%. Skerðingin í dag er í reynd 24% gagnvart tekjutengingu almannatrygginga og hefur minnkað úr tæpum 40% þannig að hv. þingmaðurinn á heiðurinn að því ásamt með meiri hlutanum sem þá var, öllum saman.

Varðandi það af hverju teknir eru 70 ára og eldri er það einfaldlega vegna þess að kannanir hafa sýnt að tiltölulega fáir vinna eftir sjötugt. Það er sem sagt verið að reyna að örva fólk og hvetja, það sem vill, til að vinna eftir sjötugt án þess að vera skert í bak og fyrir af kerfinu. Að sjálfsögðu býr það samt til misrétti eins og ég nefndi í framsöguræðu minni.