134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:05]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Íslands er kafli sem ber heitið Bættur hagur aldraðra og öryrkja. Með leyfi forseta langar mig til að vísa í þann samning og lesa úr honum. Þar segir m.a.:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja. Unnið verði að einföldun almannatryggingakerfisins. Samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verði skoðað sérstaklega til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar.“

Síðar í þessari sömu málsgrein segir:

„Dregið verði úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu. Stefnt verði að hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna fyrir aldurshópinn 67–70 ára. Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin sem og skerðing tryggingabóta vegna tekna maka. Skoðað verði hvort undanskilja megi hluta af lífeyrissjóðstekjum eldri borgara skerðingum í almannatryggingakerfinu. Jafnframt skal stefnt að því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði. Almennt skerðingarhlutfall í almannatryggingakerfinu lækki í 35%.“

Þessi ákvæði stjórnarsáttmálans vöktu eðlilega miklar væntingar um að í augsýn væri réttarbót í þessu kerfi, að það væri virkilega meiningin að bæta stöðu aldraðra og öryrkja sérstaklega gagnvart skerðingunum í almannatryggingakerfinu. Ekki minnkuðu væntingarnar þegar í ljós kom að það átti að verða fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar að leggja fram tillögu til breytinga á almannatryggingalögum til að uppfylla þessi ákvæði stjórnarsáttmálans og það var vissulega sagt strax í byrjun að þetta væri bara fyrsta skrefið.

Virðulegi forseti. Hér er að mínu mati og þeirra sem standa að minnihlutaáliti heilbrigðisnefndar og þeim tillögum til breytinga á almannatryggingalögum og lögum um málefni aldraðra um mjög mikið og slæmt fyrsta skref að ræða. Eins og bent hefur verið á í dag er ekki um að ræða að sú tillaga sem hér er lögð fram auki jöfnuð og réttlæti, eins og hv. þm. Ellert Schram nefndi áðan, heldur þvert á móti mun hún auka ójöfnuð og ranglæti í kerfinu. Sérstaklega er verið að valda vonbrigðum og auka ranglæti gagnvart þeim sem minnst hafa handa í milli og eru öryrkjar eða eru á aldursbilinu 67–70 ára.

Verði tillagan að lögum þýðir það að öryrkjar sitja algerlega óbættir hjá garði í þessari fyrstu aðgerð ríkisstjórnarinnar til að uppfylla það sem heitir í stjórnarsáttmálanum bættur hagur aldraðra og öryrkja. Ekki nóg með það heldur sitja þeir einnig hjá sem eru 67, 68 og 69 ára á hverjum tíma. En eins og bent hefur verið á í umræðunum fyrr í dag er ákvæði í lögum um aldraða sem segir skýrt að þeir eru aldraðir sem eru 67 ára og eldri. Hér er verið að skipta þeim í tvo hópa og þykir eins og bent hefur verið á bæði óþarft að flækja málin með þessum hætti og búa til nýjan aðskilnað í kerfinu með öllum þeim tæknilegu erfiðleikum sem það kostar en fyrst og fremst mismunun gagnvart þeim sem í hlut eiga. Við sem stöndum að tillögum minni hlutans í hv. heilbrigðisnefnd teljum að það eigi á þessum grundvelli að gilda ein meginregla fyrir alla aldraða og öryrkja og alla lífeyrisþega Tryggingastofnunar að þessu leyti.

Með tillögu okkar sem hefur rækilega verið kynnt, en breytingartillögurnar er að finna á þskj. 33 og nefndarálit á þskj. 32, um að hækka frítekjumarkið úr því sem nú er 25 þús. kr. á mánuði og skerðir ekki bætur frá almannatryggingum upp í 80 þús. kr. á mánuði er aðeins notaður hluti af því fjármagni sem hér er ætlað í að fella niður skerðingu vegna atvinnutekna 70 ára og eldri. Þess vegna leggjum við til að til viðbótar verði fjármagni varið í að draga úr tekjutengingu lífeyrisþega við tekjur maka þannig að heildarkostnaðurinn af þeim breytingum sem við leggjum til verði svipaður og lagt er upp með í upphaflegu frumvarpi sem er í kringum 700 millj. kr.

Það er viðurkennd staðreynd að þó að þetta hafi aðeins verið lítið skref frá síðustu áramótum, 25 þús. kr. frítekjumark á mánuði án þess að skerða bætur, þá hefur því verið vel tekið og það hefur skilað sér í því að dregið hefur úr svarti vinnu og það hvetur fólk til að taka þátt í atvinnulífinu.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir gerir í raun ráð fyrir að refsa sérstaklega þeim hópi, 67–70 ára sem eru á vinnumarkaðnum, senda þá heim og kalla þá svo aftur út á vinnumarkaðinn þegar þeir eru orðnir sjötugir. Það sér hver maður í hendi sér að það gengur ekki upp.

Ég vil minna á eins og gert var í 1. umr. um frumvarpið að allar þessar skerðingar í bótakerfinu skerða ekki aðeins möguleika einstaklinga sem í hlut eiga til tekjuöflunar heldur skerða þær einnig tekjur ríkissjóðs með því að skatttekjur og tekjur af aukinni veltu auka tekjur ríkissjóðs og til staðfestingar þessu liggur nú ný könnun hagfræðideildar Háskólans á Bifröst.

Ég tel mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að ekki verði farið af stað með þeim hætti sem hér er gert. Það verður aldrei hægt að taka þetta til baka og við skulum muna að við erum ekki bara að tala um venjulegar atvinnutekjur í þessum efnum, við erum líka að tala um eftirlaun. Og það er alveg ljóst eins og hér hefur verið bent á að stór hópur fólks mun væntanlega sjá sér skyndilega hag í því að þiggja lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins eftir að þetta frumvarp er orðið að lögum og sækja rétt sinn til lífeyris tvö ár aftur í tímann eins og heimilað er. Það eru í rauninni engar efnahagslegar forsendur, það eru engir útreikningar, það er ekkert sem styður þessa skiptingu í 70 ára og eldri annars vegar á móti því að hafa þetta alla aldraða og öryrkja. Ég bendi á og rifja upp að í stórri könnun sem gerð var á síðasta ári um tekjur lífeyrisþega, aldraðra og öryrkja kom fram að um 24% þeirra höfðu á árinu 2006 undir 80 þús. kr. í ráðstöfunartekjur. Ríflega 40% til viðbótar voru með tekjur á bilinu 80 þús. til 110 þús. kr. Þetta þýðir að á síðasta ári voru 65% allra aldraðra og öryrkja með innan við 110 þús. kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði. Það er ekkert sem bendir til þess að hópur þeirra sem eru 70 ára og eldri sé með einhverja sérstöðu í þessum efnum og það sé einhver ástæða til að draga þann hóp sérstaklega út. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði fyrr í dag að enginn ágreiningur væri um það að 70 ára og eldri hefðu skilað sínu vinnuframlagi en ég vil fullyrða að með lögunum um aldraða er skilningur löggjafans sá að það eru 67 ára og eldri sem eiga þann rétt.

Ég vil rifja upp þau viðvörunarorð sem hafa verið höfð uppi af okkur í minni hluta heilbrigðisnefndar og talsmönnum þessarar breytingartillögu. Það veit enginn hvað þetta mun kosta. Hér er talað um í frumvarpinu og að mati fjármálaráðuneytis eru þetta í kringum 700 millj. eins og ég nefndi áðan. En rök hafa verið færð að því að ef allir þeir 600 einstaklingar sem ekki þiggja ellilífeyri núna frá Tryggingastofnun ríkisins sjá sér hag í því eftir þessa breytingu þá geti það numið 600 millj. til viðbótar. Það eru ekki litlir peningar og er ótrúlegt að menn skuli ætla að deila þeim svona ójafnt út til þeirra sem á þurfa að halda. Þetta fyrsta skref vekur upp ótta um það sem á eftir mun koma, hvað það í rauninni er sem vakir fyrir hæstv. ríkisstjórn þegar hún talar í stjórnarsáttmálanum um bættan hag aldraðra og öryrkja.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur bent á að þau áform um að láta 25 þús. kr. í lífeyri, tryggingu til allra lífeyrisþega ganga í gegnum lífeyrissjóðina séu í rauninni svikamylla og ég held að betra væri fyrir hæstv. ríkisstjórn að fara sér hægar í þessum efnum. Það er alveg ljóst að með frumvarpinu er verið að efna til ófriðar og verið er að mismuna gróflega hópum og þetta er illa af stað farið þegar um mikilsvert og mikilvægt málefni er að ræða.