134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:47]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vildi kannski bæta inn í þessa umræðu og fjalla aðeins um bæði húsnæðismál og áfengismál auk svona almennra athugasemda eða ábendinga um efni þessa máls.

Ég vil fyrst segja að mér finnst vanta verulega í þessa ályktun að þar sé getið sem skyldi þeirrar þýðingar sem breytingar á húsnæðislánakerfi hafa leitt af sér á undanförnum árum. Það kom mjög skýrt fram í máli fulltrúa einstæðra foreldra og Alþýðusambands Íslands að það þyrfti að gera átak í húsnæðismálum til þess að tryggja talsverðum hópi landsmanna aðgang að húsnæði á kjörum sem þeir réðu við. Fulltrúi Alþýðusambandsins orðaði það svo að það þyrfti að endurreisa félagslega húsnæðiskerfið.

Það féllu vissulega aðvörunarorð frá þessum aðilum sem ástæða er til að taka alvarlega, og það alvarlega að það ætti að vera gildur þáttur í þessari ályktun um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna að setja sér markmið í þeim efnum.

Út af fyrir sig er hægt að setja á fót starfshóp um þetta mál og kanna það. Ég efa ekki að stjórnarmeirihlutinn hafi uppi áform um að slíkt verði gert. Þó hefði verið betra að menn hefðu tekið mið af þeim upplýsingum sem fyrir liggja og sett sér pólitísk markmið í þessum efnum en þau liggja því miður ekki fyrir. Mér finnst ástæða til að vekja máls á því að svo er. Það segir manni að stjórnarflokkarnir hafa ekki náð saman um markmið í húsnæðismálum til að bæta kjör láglaunafólks á Íslandi.

Það er svo sem kannski ekki við því að búast að stjórnarflokkarnir hafi ráðið fram úr öllum atriðum á örfáum vikum eftir að þeir ákváðu að starfa saman. Að sama skapi segir það líka að menn eru kannski að flýta sér býsna mikið við að knýja fram yfirlýsingu Alþingis í þessum efnum ef þeir gefa sér ekki tíma til að fara yfir og koma sér niður á pólitíska stefnumörkun í svo veigamiklum þætti sem húsnæðismál eru. Það er alveg ljóst að áætlun sem lýtur að því að bæta stöðu barna og ungmenna hlýtur að fela í sér aðgerðir sem lúta að fjölskyldum þeirra og þar með eru þá húsnæðismálin efst á baugi.

Við sjáum í upplýsingum um útgjöld heimilanna að sá kostnaðarliður í útgjöldum heimilanna sem hefur vaxið hvað mest á síðustu árum er til húsnæðismála. Það kemur fram í rannsókn Hagstofunnar sem birt var í desember sl. að hlutur húsnæðis, hita og rafmagns hafi hækkað úr 22,9% af útgjöldum heimilanna upp í 25,4%, þ.e. hækkað um 2,5 prósentustig. Það er dálítið mikil hækkun þegar þess er gætt að þarna er um að ræða meðaltalsútgjöld á þriggja ára tímabili, 2003–2005, borið saman við næstu þrjú ár á undan, þ.e. 2002–2004. Einu ári er sleppt, árinu 2002, og einu ári bætt við, 2005, og bara þessi eina breyting leiðir til þess að þessi útgjöld hækka um 2,5 prósentustig. Það bendir til þess að sjálfkrafa verði hækkun líka á næsta ári þegar árið 2006 bætist við og 2003 fellur burt úr samantektinni.

Ástæðan fyrir því að þessi hlutur vex, þessi þáttur af útgjöldum heimilanna, er einmitt sú að vaxtakostnaðurinn hefur vaxið og verðið á íbúðarhúsnæði hefur hækkað. Þessi mikla verðsprenging sem varð á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt til þess að þessi þróun er í gangi.

Ef við skoðum greiningu á þessum kostnaði eftir búsetu og eftir félagslegri stöðu sjáum við að langhæstur er hlutur einhleypra á landinu öllu. Þar er þessi þáttur kominn í 28,3% af öllum útgjöldum. Þegar tekin eru með húsgögn og heimilisbúnaður sem eru 6,8% sést að einhleypir verja þriðjungi tekna sinna til húsnæðismála, sem er náttúrlega býsna há tala. Einstæðir foreldrar verja 31% af útgjöldum sínum til húsnæðismála.

Ég held að það þurfi að bregðast við þeirri þróun sem er í gangi, vaxandi húsnæðiskostnaði sem er hæstur á höfuðborgarsvæðinu eins og vænta má vegna þess að þar er íbúðaverðið hæst. Þar er húsnæðisþátturinn tæp 27% af öllum útgjöldum en í dreifbýli á landsbyggðinni er það ekki nema 21%. Ég held að aðgerðaáætlun eins og þessi geti ekki annað en tekið mið af þessari þróun og að í henni verði að vera einhver stefna ríkisstjórnarinnar um það hvernig eigi að bregðast við.

Það kom fram í máli fulltrúa Alþýðusambandsins að hann taldi að það yrði að endurreisa félagslega íbúðakerfið án þess að útskýra það svo sem nánar en það hlýtur að þýða að framboð þarf að vera á húsnæði sem kostar minna á mánuði en boðið er í dag, hvort sem menn líta til leigu- eða eignarhúsnæðis.

Það er auðvitað út af fyrir sig stefna að gera það en ríkisstjórnin þarf eiginlega að svara því hvort hún vill gera þetta. Vill hún bæta kjör lágtekjufólks á Íslandi, sem er kannski sá hópur sem horft er til varðandi stöðu barna og ungmenna, með því að verja fjármagni til þess að lækka húsnæðisútgjöldin hjá þessum hópi, hvort sem það er gert með því að byggja og leigja þær íbúðir á verði sem endurspeglar byggingarkostnað en ekki markaðsverð — eins og við vitum er markaðsverð á höfuðborgarsvæðinu verulega yfir byggingarkostnaði — eða hvort leigan verður meira niðurgreidd, meira fé varið til húsaleigubóta og annars slíks? Það eru út af fyrir sig ýmis úrræði sem hægt er að nota til að lækka þennan útgjaldalið en það er alveg ljóst að það vantar hina pólitísku stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli sem er langstærsti einstaki útgjaldaliður fjölskyldnanna. Aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra getur ekki verið fullbúin nema það sé til stefna í þessu máli. Það er dálítið sláandi að svona veigamikinn þátt skuli vanta í stefnumörkunina.

Ég er ekki að segja að það sé endilega einhver frágangssök að flokkarnir hafi ekki komið sér saman um stefnu um það eftir svona skamman tíma. Ég vil þó segja að fyrst að flokkarnir lögðu af stað með þessa þingsályktunartillögu er það eiginlega frágangssök að mínu mati að skilja þennan þátt alveg eftir og svara engu um það hvort flokkarnir telja þetta yfir höfuð hluta af vandamálinu sem þurfi að glíma við, og ef svo er hvernig þeir ætli að gera það. Til dæmis er þessi liður miklu hærri en matarútgjöld. Nú er mikið talað um kostnað heimilanna af innlendum matvælum. Sá liður er ekki nema um 5% af útgjöldum heimilanna. Samfylkingin hefur lagt töluverða áherslu á umræðu um þann þátt málsins og að hægt sé að lækka þessi útgjöld með innflutningi á matvælum. Það má vel vera að það kunni að vera gerlegt að lækka þessi 5% eitthvað. Ég veit ekki hverju menn gætu hugsanlega náð, niður í 4% eða 3,5%, en það er samt ekki nema brot af hækkuninni sem varð á milli ára í húsnæðisliðnum sem var 2,5 prósentustig og verður örugglega líka önnur hækkun á næsta ári þegar árið 2006 bætist við. Það er árið með háa húsnæðisverðinu. Árið 2003 dettur út úr þessari þriggja ára viðmiðun, árið þegar húsnæðisverðið er ekki komið upp sem varð eftir að bankarnir fóru inn á íbúðalánamarkaðinn árið 2004.

Ég mundi giska á að húsnæðisliðurinn hækkaði a.m.k. jafnmikið við næstu mælingu þegar tekin verða árin 2004, 2005 og 2006 og færi þá jafnvel upp í 28% eða eitthvað slíkt. Það gæti síðan enn hækkað á næsta ári þegar tekin verða árin 2005, 2006 og 2007 vegna þess að hækkunin kemur ekki öll fram á árinu 2004. Inni í þessari þriggja ára mælingu sem hér er undir í síðustu mælingu Hagstofunnar er aðeins hálft tímabilið eftir að verðlagið tók að stíga á fasteignamarkaðnum.

Ef maður giskar á niðurstöðuna þegar allt mælingatímabilið verður farið að endurspegla hið háa íbúðaverð má leiða líkur að því að húsnæðisútgjöldin nálgist 30% af útgjöldunum en eru núna við síðustu mælingu 25,4%. Þetta er auðvitað gríðarlega stór liður og mikil hækkun.

Ég nefni þetta til að vekja menn til umhugsunar og vonandi umræðu um hvernig eigi að bregðast við sem ég held að sé fyrsta spurningin sem þarf að svara. Í öðru lagi, ef menn hafa svarað því játandi að það eigi að bregðast við til að tryggja a.m.k. tilteknum hópi aðgang að húsnæði á lægra verði en er í boði þarf að finna leiðirnar sem menn vilja fara til þess. Það er út af fyrir sig önnur umræða því að svona þingsályktunartillaga er fyrst og fremst stefnumörkun en ekki útfærsla á leiðum. Ég hefði talið eðlilegt í þessu, fyrst ákveðið var að leggja þessa þingsályktunartillögu fram, að stefna hefði verið mörkuð, að flokkarnir gætu svarað því játandi að þeir teldu ástæðu til að lækka húsnæðiskostnað lágtekjufólks.

Í öðru lagi minni ég á að tekjur fjölskyldna eru breytilegar eftir búsetu og sú þróun hefur mjög vaxið á síðustu árum. Áður fyrr, og kannski er ekki svo langt síðan svo var, voru tekjur að jafnaði hærri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og voru fyrst og fremst bornar uppi af háum tekjum í sjávarútvegi, fiskvinnslu og útgerð. Nú hefur þetta snúist við. Hátekjustörfin hafa fyrst og fremst orðið til í öðrum atvinnugreinum sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu og hátekjustörfum í fiskveiðum hefur fækkað verulega og reyndar flust til, mörg þeirra starfa eru komin á höfuðborgarsvæðið. Laun í fiskvinnslu hafa líka lækkað og það þýðir að meðaltekjur fjölskyldna á landsbyggðinni eru orðnar lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Í þessari skýrslu Hagstofunnar kemur fram að munurinn er verulegur. Meðalráðstöfunartekjur fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu voru 4,6 millj. af þessu meðaltali áranna 2003–2005 en aðeins 4,1 millj. í þéttbýli á landsbyggðinni, þ.e. nálægt hálfri milljón lægri, sem er rúmlega 11%. Í dreifbýli voru þessar meðaltekjur 3,7 millj., þ.e. um 900 þús. kr. lægri sem er nærri 20% munur.

Ef þetta er skoðað sem meðaltalstekjur á einstakling, vegna þess að það eru jú fleiri sem afla tekna í venjulegri fjölskyldu en einn aðili, eru meðaltekjurnar á höfuðborgarsvæðinu um 1.850 þús. á mann, 1.600 þús. í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins og 1.500 þús. í dreifbýli. Þetta rímar dálítið við þær upplýsingar sem tiltækar eru annars staðar frá um að tekjulágt fólk sé mikið í sveitum landsins, t.d. er tekjulægsta landsvæðið Norðurland vestra, gamla kjördæmið, þar eru lægstu meðaltekjur á Íslandi og hafa verið lengi. Næstlægsta svæðið er svo Suðurlandsundirlendið þar sem landbúnaður er líka mjög stór þáttur í atvinnulífi. Við vitum að fjölskyldur til sveita standa oft illa að vígi þegar þarf að mennta börn þeirra, sérstaklega þegar þau komast á framhaldsskólaaldur. Ég held að þingsályktunartillaga sem lýtur einmitt að því að styrkja stöðu barna og ungmenna þurfi að taka á þessu. Í nefndaráliti kemur fram ábending um að jafna mismunandi kostnað vegna skólasóknar í framhaldsskóla og það kemur svona til móts við þetta en ég held að það þurfi að skoða málið frekar því að ég held að það sé líka það mikill munur á tekjum að það sé ástæða til að hafa töluverðar áhyggjur. Því er ekki hægt að líta fram hjá þessum staðreyndum um lágar tekjur til sveita.

Þriðja atriðið sem ég vildi fjalla um lýtur að kaflanum um almennar forvarnaaðgerðir, 2. tölul. þar sem vikið er að áfengi og tóbaki. Þar segir í 1. málsl. að stuðlað „verði að reyklausu umhverfi barna og ungmenna og forvörnum gegn reykingum verður áfram sinnt vel“. Þetta er út af fyrir sig ágæt stefna og í samræmi við það sem menn hafa gert og náð árangri. Það að stuðla að reyklausu umhverfi er gert með ýmiss konar aðgerðum til að breyta viðhorfi barna og ungmenna til tóbaks. Það er viðhorfsbreytingin sem er kannski lykillinn að árangrinum sem við höfum náð á þessu sviði á síðustu 20 árum. Það er algjör breyting, gerbylting, í viðhorfi til tóbaks á mjög stuttum tíma til hins betra. Það er árangur stefnu, það gerðist ekki af sjálfu sér heldur er þetta stefna sem stjórnvöld hafa átt sinn þátt í bæði að móta og hrinda í framkvæmd eins og auðvitað fleiri aðilar sem hafa komið að því að breyta þessu viðhorfi.

Á hinn bóginn er aðra sögu að segja um áfengið. Þar er þróunin sú á undanförnum árum að áfengisneysla hefur farið vaxandi og sérstaklega í hópi fullorðinna. Áfengisvandamál hafa aukist og allt viðhorf til áfengisneyslu má segja að sé fremur jákvætt. Umræðan um áfengismál þessa dagana snýst um að verjast því að viðhalda banni við áfengisauglýsingum. Eitt dagblaðanna hefur að undanförnu skrifað fréttaskýringar gegn banni við áfengisauglýsingum. Það hefur ekki komið fram hvað vakir fyrir ritstjórn þess dagblaðs en mér finnst það bera vott um vilja til þess að opna nýja tekjulind fyrir útgáfustarfsemina til þess að geta aflað sér auglýsingatekna með sölu auglýsinga undir áfengi og hafa því aðra hagsmuni en þá að draga úr afleiðingum af áfengisneyslu.

Í þessum texta segir það um áfengisneyslu að ungmennum verði „veitt viðeigandi fræðsla um áhrif og afleiðingar áfengisneyslu“ og að „hugað verði að aðgengi ungmenna undir lögaldri að áfengi“. Þarna er ekki mikið sagt. Meginuppistaðan í hinni pólitísku stefnu í áfengismálum hjá ríkisstjórninni er að veita viðeigandi fræðslu um áhrif og afleiðingar neyslu.

Þeir sem kynna sér tiltækt efni um áfengi og afleiðingar þess, eins og t.d. bók sem Lýðheilsustöð gaf út fyrir ekki svo löngu síðan, geta kynnt sér ýmsan fróðleik um þessi mál. Það sem stendur kannski upp úr þar eru upplýsingar frá bandarískum aðilum. Ég leyfi mér kannski að lesa eina setningu úr þessu riti, með leyfi forseta:

„Í stuttu máli má því segja að fræðsla og áróður hafi í besta falli lítil áhrif. Og þá sjaldan að jákvæð áhrif koma fram þá fjara þau fljótt út aftur.“

Uppistaðan í áfengisstefnunni í þessu skjali er að vitna í fræðsluna sem hefur minnst gildi í áfengisstefnunni, hefur „í besta falli lítil áhrif“ segir hér í ritinu frá Lýðheilsustöð. Það er ekki getið um það að stuðla að áfengislausu umhverfi. Stjórnmálamenn og ríkisstjórn geta auðvitað gengið á undan með góðu fordæmi og gefið út yfirlýsingar um að þau stefni að því að ekki verði veitt áfengi í opinberum veislum eða dregið úr því eða eitthvað slíkt til þess að hafa áhrif á fólk, alveg eins og menn gera varðandi tóbakið. En það er ekki gert. Það er að mínu viti vegna þess að viðhorf til áfengisneyslu er of jákvætt af hálfu stjórnmálamanna.

Það kemur líka fram í þessu riti og reyndar öðrum sem menn geta haft aðgang að ef þeir gá að þessum bókmenntum að það sem helst hefur áhrif á áfengisneyslu og vandamál er peningar. Neyslan er ekki vandamál í sjálfu sér en ef við horfum hins vegar á hana sem hluta af fjárveitingavaldinu horfum við á útgjöld. Það eru stórkostleg útgjöld sem ríkissjóður verður fyrir vegna áfengis og þau lenda á skattgreiðendum. Þess vegna er það skylda stjórnvalda að marka sér einhverja stefnu í þessum efnum til að lágmarka kostnaðinn, til að hafa áhrif á það að neyslan verði minni sem og kostnaður samfélagsins og skattgreiðendanna. Þetta gera öll almennileg stjórnvöld. Áfengisneyslan hefur vaxið, hún hefur tvöfaldast á ekki löngum tíma á Íslandi. Kostnaðurinn hefur líka vaxið, ég veit ekki hvort segja megi að sama skapi en hann hefur vaxið mikið.

Af því að í nefndarálitinu er sleginn varnagli við öllum fögru áformunum í málefnum barna og ungmenna, sá varnagli að horfa þurfi til afkomu ríkissjóðs og efnahagslífsins í heild við framkvæmd þeirra, hljóta menn að gera það líka í stefnumörkun í áfengismálum. Menn geta varla leyft sér að sleppa því að móta sér stefnu til að draga úr kostnaðinum vegna þess að þá eru menn að segja að sá kostnaður sé eitthvað sem menn hafi ekki áhyggjur af. Það gengur ekki upp. Ég ætla ekki stjórnarflokkunum eða öðrum það skeytingarleysi að kostnaður sem fellur á þjóðfélagið og ríkissjóð vegna áfengismála sé kostnaður sem þurfi ekki að tala um heldur bara láta ríkið borga en að setja þurfi fyrirvara við kostnað sem fellur til vegna framkvæmda við ýmis fögur áform í málefnum barna og ungmenna, við ráðumst ekki í þennan eða hinn kostnaðinn nema aðstæður í efnahagslífinu og ríkisbúskapnum leyfi okkur að setja peninga í það.

Í þessu felast auðvitað líka ákveðin viðhorf. Ég dreg þetta fram til að mönnum sé það ljóst og geti þá bætt úr ef sjónarmið manna í stjórnarliðinu eru á annan veg en þessi viðhorf lýsa, þ.e. að varnaglinn sé sleginn vegna útgjalda til barna og ungmenna af almennum toga en ekki minnst á útgjöldin sem verða vegna áfengismála. Eru þau þó mikil og fara vaxandi.

Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af þessu vegna áherslna þeirra ráðherra sem kannski eiga helst að leggja tillögu eða efni inn í nýja áfengisstefnu, heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra. Hverjar hafa verið helstu áherslur þeirra á undanförnum árum í þessum málum? Annar ráðherrann hefur ár eftir ár lagt fram til tillögu eða lagafrumvarp ásamt fleirum um að lækka áfengiskaupaaldur úr 20 árum niður í 18. Hinn hefur lagt fram lagafrumvarp ásamt fjöldamörgum öðrum þingmönnum um að áfengi verði selt í matvörubúðum.

Nú vill svo til að áhrifin af því að fara þessar leiðir eru þekkt erlendis frá og við getum lesið okkur til um hvað menn hafa uppskorið þar sem þeir hafa gripið til þessara aðgerða. Bandaríkjamenn lækkuðu áfengiskaupaaldurinn hjá sér úr 21 ári í 18 ár fyrir nokkrum árum og niðurstaðan varð svo skelfileg að alríkið setti löggjöf og skilyrti framlög til vegamála því að ríkin hækkuðu áfengiskaupaaldurinn aftur upp í 21 ár — sem þau gerðu — vegna þess að tjónið af dauðsföllunum varð svo mikið að menn stóðu ekki undir því. Þegar búið var að hækka áfengiskaupaaldurinn aftur dró úr skaðanum, dró úr dauðsföllunum og kostnaðinum sem féll á þjóðfélagið vegna þessara mála.

Þessi reynsla er til víðar, t.d. á Nýja-Sjálandi, og ég spyr: Ætlar félagsmálaráðherrann að standa á skoðun sinni og leggja til að lækka áfengiskaupaaldur niður í 18 ár? Er það þátturinn í áfengisstefnu núverandi ríkisstjórnar að fara þá leið, vitandi til hvers það getur leitt? Ég hefði viljað, virðulegi forseti, að í þessu skjali væri stefna mörkuð á þann veg að menn gerðu það ekki og að stefnan væri líka mörkuð þannig varðandi aðgengi að áfengi að menn færu ekki með sölu á áfengi í matvöruverslanir vegna þeirra afleiðinga sem menn vita að verða af því.

Samandregið má segja að það sem skipti máli til að reyna að halda niðri kostnaði vegna notkunar og misnotkunar áfengis er aldurstakmarkanir við áfengiskaup, ríkiseinkasala á áfengi eða eitthvert sambærilegt form við að selja það, takmarkaður sölutími, söludagar og fjöldi sölustaða og að hafa verðlagið hátt. Þetta eru meginþættirnir sem hafa áhrif og ef menn beita þeim draga menn úr notkun og þar með úr kostnaði. Um þetta allt er ekkert sagt í skjalinu nema að aðeins er vísað á fræðsluna sem líka er vitað að hefur nánast engin áhrif.

Ég vil, virðulegi forseti, fara yfir þetta vegna þess að mér finnst þetta alvörumál. Mér finnst alvörumál að þetta skuli vanta, kannski vegna þess að það er ekki komið svo langt að móta stefnuna, við skulum a.m.k. halda því opnu að svo sé, en í ljósi þess sem við vitum um afstöðu þeirra tveggja ráðherra sem mest áhrif hafa á stefnuna er ástæða til að ætla að ekki sé áhugi hjá þeim til að beita þeim ráðum sem helst duga, heldur þvert á móti sé áhugi þeirra til þess að breyta núverandi fyrirkomulagi sem mun leiða af sér meiri kostnað, meiri vandamál og meiri útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég held að ekki sé hægt að fara í gegnum umræðu um þetta mál öðruvísi en að taka umræðu um áfengisstefnuna og kalla eftir henni.

Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í áfengismálum? Er hún sú að auka vandann eða er hún í stuttu máli sú að minnka hann? Ríkisstjórnin svarar því ekki skýrt að öðru leyti en því að eina ráðið í þessari skýrslu sem lagt er til að gripið verði til er það ráð sem minnstu máli skiptir.

Maður hlýtur að velta fyrir sér hver afstaða ríkisstjórnarinnar verði gagnvart áfengisauglýsingum. Ætlar ríkisstjórnin að vinna með þeim sem eru að vinna í þessum málaflokki og verja áfengisauglýsingabannið eða ætlar ríkisstjórnin að hrekjast undan þeim aðilum sem vilja brjóta það niður og eru að gera það leynt og ljóst, m.a. í gegnum útvarpið og sjónvarp? Það er auðvitað stefna í sjálfu sér að leyfa öðrum aðilum að brjóta niður varnarþættina í stefnunni. Þá er líka engin ástæða til að hlífa mönnum við því heldur láta þá svara fyrir það.

Virðulegi forseti. Ég held að ég láti þetta duga um þessa þætti sem mér finnst kannski að ástæða væri til að gera frekari grein fyrir en fram kemur í þingsályktunartillögunni og nefndarálitinu, þ.e. þeim sem lúta að tekjum og útgjöldum heimilanna til húsnæðismála og áfengisstefnunni. Mér finnst svolítið sérstakt að afstaða stjórnarflokkanna skuli vera sú að flytja mál af þessum toga en lýsa því jafnframt yfir að ekki komi til greina að breyta því þannig að þingleg meðferð málsins lýtur ekki að því að breyta skjalinu sem lagt er fyrir þingið og það hefur til meðferðar. Ég er svo sem ekki að gera stórar athugasemdir við það, út af fyrir sig getur ríkisstjórnin sagt: Þetta er stefnuyfirlýsing okkar, og þá bara flytur hún hana. Þegar hins vegar ákveðið er að flytja það sem þingmál er ætlast til þess að allir þingmenn hafi afstöðu til málsins og þá felst líka í því að menn ætla væntanlega að gera eitthvað með það sem aðrir hafa fram að færa. Það sem er óvenjulegt er að lýsa því yfir að skjalinu verði ekki breytt. Þó svo að í nefndaráliti sé látið koma fram ýmislegt af því sem fram hefur komið, m.a. frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem út af fyrir sig er góðra gjalda vert, er nefndarálit ekki það sama og þingsályktun, það er tvennt ólíkt. Nefndarálit er aðeins yfirlýsing þeirra sem undirrita það, bindur engan annan, bindur ekki þingið og bindur ekki ríkisstjórnina. Þó að eitthvað sem nefnt er í nefndaráliti nái ekki fram að ganga hefur ekkert gerst. Þingsályktun er yfirlýsing þingsins sem ráðherrarnir taka þátt í að samþykkja með atkvæðum sínum og eru þar af leiðandi búnir að lýsa yfir að þeir ætli að standa við. Það er tvennt ólíkt að bera saman það sem er í ályktuninni og það sem er í nefndaráliti þó að ég ætli ekki að gera lítið úr því sem stendur í nefndarálitinu. Það er öðru nær en það hefur bara allt aðra og miklu minni þýðingu

Þess vegna finnst mér skipta máli að það skuli bara standa í nefndarálitinu að leggja áherslu á að draga úr námskostnaði í dreifbýli og jafna hann við námskostnað í þéttbýli. Það er gott markmið sem ég held að menn séu sammála um en það stendur ekki í þingsályktunartillögunni sem þýðir einfaldlega að það er ekki vilji til þess hjá ríkisstjórninni að láta það koma hér fram og verða hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það þýðir ekki endilega að ekki verði staðið við það en það þýðir a.m.k. að það eru engin loforð um að staðið verði við það.

Mér finnst líka skipta máli að það stendur bara í nefndarálitinu að lenging fæðingarorlofs eigi ekki að leiða til þess að fæðingarorlofsupphæð hvers einstaklings lækki. Textinn í þingsályktunartillögunni er þannig orðaður að það er hægt að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði án þess að auka kostnaðinn. Við höfum fordæmi fyrir því að brugðist hefur verið við ákveðinni lengingu fæðingarorlofs með því að lækka kostnaðinn hjá hverjum og einum einstaklingi. Það var gert á síðasta kjörtímabili.

Ég ætla ekkert að vefengja vilja nefndarmanna í félagsmálanefnd til að standa við það sem hér stendur um að lenging fæðingarorlofsins verði ekki til þess að draga úr réttindum foreldra. Ég ætla ekki að draga það í efa en sú yfirlýsing er ekki hluti af því sem þingið mun samþykkja þannig að það liggur ekkert fyrir um að ríkisstjórnin muni framfylgja málinu á þennan veg.

Fleira ætla ég ekki að segja um þetta mál, virðulegi forseti, en þegar er komið fram annað en að þetta er í sjálfu sér ágæt aðferð við að koma með svona eitthvert manifestó í málaflokki eins og þessum, fara með það fyrir þingið og afgreiða það sem stefnuyfirlýsingu. Ég hef ekkert á móti því og tel það að mörgu leyti til bóta. En ég vænti þess að menn endurskoði þá framkvæmd að útiloka fyrir fram að hin þinglega meðferð hafi einhverjar breytingar á skjalinu í för með sér. Það er þá kannski óþarfi að leggja málið fyrir þingið ef það á ekki að endurspegla vilja þingsins heldur bara stjórnarflokkanna.