134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[17:25]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem þingmaðurinn sagði varðandi atvinnulífið. Ég held að það sé rétt að atvinnulífið hefur alls ekki verið nógu sveigjanlegt þegar kemur að þessum málum. Í raun og veru eru allir steyptir í sama mót hvað það snertir, vinnutíminn er ekki nógu sveigjanlegur og jafnvel þó að oft sé talað um að hafa sveigjanlegan vinnutíma þá er hann ekki nógu sveigjanlegur. Vinnutíminn er almennt það langur hjá flestum og báðir foreldrar þurfa nú að vinna úti eins og staðan er hjá okkur, þannig að það er ekki mikið um annað að tefla en að börn séu á leikskólum í átta og jafnvel níu tíma, stundum lengur, meðan foreldrarnir vinna.

Hins vegar vil ég segja að ég hef talsverða reynslu af því að starfa í leikskólageiranum sem borgarfulltrúi í Reykjavík og formaður í leikskólaráði Reykjavíkur í fjögur ár. Ég hef kynnst mjög mikið uppbyggingu leikskólanna og ég fullyrði að það er afar metnaðarfullt og gott uppeldisstarf og menntastarf sem fer fram í leikskólunum almennt í landinu og er síst eftirbátur þess starfs sem fer fram í grunnskólunum og höfum við þó gjarnan talað um að þeir séu góðir og grunnskólinn má margt læra af leikskólunum að mínu viti. Ég tel að þar fari fram mjög metnaðarfullt og mikilvægt starf sem börn hafa gott af en auðvitað eru börn eins og allir aðrir einstaklingar mismunandi og það getur verið persónubundið hvað hentar hverjum og einum. Mér fannst í ræðu þingmannsins gæta of mikillar alhæfingar hvað það snertir að börn ættu helst ekki að fara í leikskóla fyrr en við þriggja ára aldur og ég lýsi mig ósammála því viðhorfi.