134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[19:24]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er rétt sem hér kemur fram og ég dró það fram í ræðu minni að hægt er að ráða í deildarstjórastöðurnar án auglýsingar, en hin almenna regla er auglýsingaskylda og það er verið að víkja frá henni. Þetta er það mikil breyting að bæði BSRB og BHM lýsa sig algjörlega á móti henni. Þetta er því mikil breyting. Ég hef það á tilfinningunni að hv. þm. Birgir Ármannsson sé að reyna að gera eitthvað minna úr þeirri breytingu en tilefni stendur til.

Að líta á Stjórnarráðið sem einn vinnustað, jú, það eru rök fyrir því að menn geti farið og flust á milli starfa án auglýsingar af því að þetta sé eðlislíkt o.s.frv. En ef þetta eru rökin sem halda er alveg eins hægt að færa rök fyrir því að ráðuneyti og stofnanir þess séu einn vinnustaður af því að það er miklu eðlislíkara að mörgu leyti en ráðuneyti sem eru með mismunandi málaflokka í sinni umsjá og umsýslu.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann eðlilegt að litið verði á ráðuneyti og undirstofnanir þess sem einn vinnustað og menn geti þá flutt ráðuneytisstarfsfólk fram og til baka inn í undirstofnanir með þeim hætti án auglýsinga?