135. löggjafarþing — þingsetningarfundur

minning Einars Odds Kristjánssonar.

[14:27]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Við þingsetningu söknum við alþingismenn og minnumst eins úr okkar hópi. Einar Oddur Kristjánsson, 8. þm. Norðvest., varð bráðkvaddur í fjallgöngu 14. júlí, 64 ára að aldri.

Einar Oddur Kristjánsson var fæddur á Flateyri 26. desember 1942. Foreldrar hans voru hjónin Kristján Ebenezersson, skipstjóri þar, og María Jóhannsdóttir símstöðvarstjóri.

Einar Oddur stundaði nám í Héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði og í Menntaskólanum á Akureyri. Á skólaárunum var hann á sjó en einnig við fiskvinnslu í landi. Hann var skrifstofumaður á Flateyri 1961–1965 og póstafgreiðslumaður þar 1965–1968. Frá árinu 1968 starfaði Einar Oddur við sjávarútveg, fyrst sem einn af stofnendum og framkvæmdastjóri hlutafélagsins Fiskiðjunnar Hjálms. Hann var síðar stjórnarformaður hlutafélaganna Hjálms, Vestfirsks skelfisks og Kambs.

Einar Oddur Kristjánsson hóf snemma afskipti af stjórnmálum í heimabyggð sinni. Hann sat í hreppsnefnd Flateyrarhrepps 1970–1982, var formaður Sjálfstæðisfélags Önundarfjarðar 1968–1979, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1979–1990 og formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum 1990–1992.

En aðalstarfsvettvangur Einars Odds Kristjánssonar var í atvinnulífinu. Þar voru honum falin margvísleg trúnaðarstörf á landsvísu, einkum á sviði efnahags- og atvinnumála. Hann sat í stjórn Vinnuveitendafélags Vestfjarða frá árinu 1974. Hann var í varastjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 1983–1989, í aðalstjórn 1989–1994, stjórnarformaður Vélbátaútgerðarfélags Ísfirðinga frá árinu 1984. Hann átti sæti í stjórn Icelandic Freezing Plant í Grimsby 1987–1989 og í stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva 1981–1996. Hann var formaður efnahagsnefndar ríkisstjórnarinnar 1988. Formaður Vinnuveitendasambands Íslands var hann 1989–1992 og í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs 1995.

Einar Oddur Kristjánsson var kjörinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestfjarðakjördæmi 1995–2003 og var síðan alþingismaður Norðvesturkjördæmis 2003 til dánardægurs. Á Alþingi átti hann sæti í mörgum nefndum en lengst og mest starfaði hann í fjárlaganefnd, var varaformaður hennar 1999–2007 og jafnframt aðaltalsmaður síns flokks í ríkisfjármálum. Hann var einnig virkur þátttakandi í alþjóðastarfi þingsins, átti meðal annars sæti í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins og NATO-þingsins.

Einar Oddur Kristjánsson kom sem ferskur gustur að gerð kjarasamninga sem nýr formaður Vinnuveitendasambands Íslands í lok 9. áratugar síðustu aldar og var einn aðalhöfundur þjóðarsáttarsamninganna svokölluðu, ásamt forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar, sem lögðu grunn að stöðugleika og efnahagslegum framförum lengi síðan. Hann var sjálfstæður í skoðunum og ódeigur að fylgja sannfæringu sinni. Honum var einkar lagið að komast fljótt að kjarna málsins og setja flókna hluti fram á einfaldan hátt svo að fólkið skildi hann vel og treysti málflutningi hans.

Einar Oddur Kristjánsson var eftirminnilegur einstaklingur sem náði að snerta streng í brjóstum flestra Íslendinga og bar gæfu til þess að hafa heillavænleg áhrif á þróun íslensks samfélags um sína daga.