135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[15:17]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það var athyglisvert að fylgjast með umræðum hér í dag um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar á þorskkvóta. Það eina sem vinstri grænir tala um er skortur á samráði við sveitarfélögin. (Gripið fram í.) Ég efast um að meira samráð hafi verið haft við sveitarfélögin í öðrum málum á undanförnum árum en gert var í þessu máli. Nánast hvert einasta sveitarfélag sem þetta mál snertir hefur sent inn tillögur til ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) sem farið hefur verið eftir og tillit tekið til.

Það eina sem Grétar Mar Jónsson hefur til málanna að leggja eru fullyrðingar og gífuryrði um að þessi aðgerðin eða hin gagnist ekki þessum eða hinum. Ég leyfi mér að fullyrða að hv. þingmaður veit nákvæmlega ekkert um hvað hann er að tala. Allar þessar aðgerðir gagnast einhverjum af þeim sem í hlut eiga.

Framsóknarflokkurinn, sem er nýstiginn út úr ríkisstjórn, kemur hins vegar mjög sterkur til leiks miðað við aðra flokka stjórnarandstöðunnar. Hann setur fram tillögur, mér liggur við að segja fullbúnar tillögur, sem hann leggur með sér í umræðuna. Ekki er annað hægt að segja um þær tillögur en að þær séu að flestu leyti ágætar enda eru þær allar í sama dúr og tillögur ríkisstjórnarinnar, fjalla um nákvæmlega sömu atriði og tillögur ríkisstjórnarinnar.

Hins vegar eru þær á sama veg og maður hefur margsinnis áður upplifað hjá stjórnarandstöðunni, eini munurinn á þeim og tillögum ríkisstjórnarinnar er að þar er um að ræða yfirboð. Á sama tíma talar fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd um það að ríkisstjórnin komi fram með þenslufjárlög.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson telur ákvarðanirnar mjög umdeildar. Hann er greinilega ekki á sama máli og formaður flokksins sem sagði: Við vildum líka ganga til mikils niðurskurðar, bara ekki alveg á sama hátt og ríkisstjórnin vildi gera. Greinilega ekki alveg sami taktur hjá þeim félögum og ég kannaðist við áður. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði líka um flutningssjóð olíuvara, að hann skipti máli í þessu sambandi vegna þess að verið er að gera breytingar á honum í fjárlagafrumvarpinu.

Fyrir einum þremur árum stóðum við saman að því að leggja niður svipaðan sjóð um flutningsjöfnun á sementi. Það tókst ágætlega og flutningsverð og verð á sementi lækkaði við þá breytingu. (JBjarn: Á Vestfjörðum? Nei.) Við skulum sjá til hvort sú aðgerð sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu hefur ekki sömu áhrif.

Þær tillögur og þær aðgerðir sem lagt er upp með til að vega upp á móti þorskniðurskurði eru vel ígrundaðar, þær hafa ákveðin markmið. Markmiðin eru þau að hjálpa þeim sem verða fyrir þessum breytingum, hjálpa þeim að fá ný störf, hjálpa þeim til að búa sig undir ný störf og hjálpa sveitarfélögunum til að skapa ný störf í byggðarlögunum og viðhalda því framkvæmdastigi og þeirri þjónustu sem þar þarf að vera þrátt fyrir niðurskurðinn. Við skulum vona að okkur takist að lögfesta tillögurnar tímanlega á þessu þingi til þess að þær geti farið í gang og þá geta þær — jafnvel þó að að einhverju leyti sé meiningarmunur um magn á milli ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins — (Forseti hringir.) farið að hafa áhrif í þá veru sem við erum sammála um.