135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:11]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leiðinlegt ef ég hef misskilið málflutning Framsóknarflokksins. Ég er orðinn nokkuð vanur að hlusta á málflutning framsóknarmanna og taka mið af honum á ýmsa vegu. Það er sjálfsagt að hv. þingmaður fái tækifæri til að útskýra það betur fyrir mér. Hann gerir það kannski í umræðunni.

Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að fjárlögin séu of bólgin í miðju góðærinu. Við erum hérna 4. október 2007 að fjalla um fjárlög sem eiga að taka gildi 1. janúar 2008 og gilda út 12 mánuðina þar á eftir. Fjárlögin eru byggð á efnahagsspá fyrir það ár. Sú spá gerir ráð fyrir því að mjög verulega dragi úr þjóðarframleiðslu og við þeim samdrætti er verið að bregðast í þessu fjárlagafrumvarpi. Við höfum lengi vitað, vegna þess að þær hafa verið byggðar á áætlunum, að framkvæmdum við álver og stóriðju á Austurlandi lýkur og þá minnka umsvifin í efnahagskerfinu. Þess vegna er mjög aukið á framkvæmdir hins opinbera í þessu frumvarpi.

Meðan þær framkvæmdir voru í hámarki var á sama hátt verulega dregið úr framkvæmdamagni hjá ríkinu þannig að það var komið niður í um 1% af þjóðarframleiðslunni. Fjárlagafrumvarpið byggist á því að við horfum fram á veginn og tekur mið af ástandi sem við gerum ráð fyrir að verði ríkjandi á því ári sem fjárlögin taka til. Auðvitað eru menn misjafnlega framsýnir. Sumir eru jafnvel skammsýnir og sjá þar af leiðandi ekki (Forseti hringir.) hvað er fram undan.