135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:34]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var svo sem ekki mikið að græða á þessari ræðu hv. þingmanns um afstöðu hans eða hans flokks til einstakra mála sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu. Hann lagði enn út af sama þemanu um að það væri svo mikil óvissa í þessu að ekki væri hægt að vinna eftir því, það væri ekki hægt að vinna í svona óvissuumhverfi.

Það var þó eitt sem mér fannst ég sjá í gegnum þokuna hjá honum, honum finnst ekki nægjanlega miklu vera ráðstafað af afkomunni, af afgangnum, hann hefði frekar viljað sjá þessum aukna afgangi ráðstafað til ýmissa verkefna sem hann fór yfir en að hann væri á reikningi í Seðlabankanum. Er þetta rétt athugað hjá mér?