135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:23]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum hlýtt á ræðu Guðbjarts Hannessonar og ég deili þeirri skoðun með honum að margt er gott í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur frammi. Það er sem betur fer alltaf þannig að meiri hlutinn af þeim verkefnum sem ríkið ræðst í eru verkefni sem við erum algjörlega sammála um og við erum sem betur fer sammála um miklu fleira en við erum ósammála um.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson vék aðeins að orðum mínum um kjarasamninga og um það hverjar forsendur fjárlagafrumvarpsins væru í þeim efnum. Orð mín verða ekki misskilin með þeim hætti að ég hafi talið að svo og svo há upphæð ætti að liggja fyrir til þess að setja í samningspúllíuna. Slíkt barn er ég nú ekki þó að ég sé úr Flóanum.

Ég vakti í morgun athygli á því að fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að hækkun kauptaxta á næsta ári verði 5,5% og 3,8% árið 2009. Ég innti fulltrúa Samfylkingarinnar, sem þá var í salnum, eftir því hvort hann teldi þetta vera í anda þess sem Samfylkingin vildi sjá og fékk ekki við því nein efnisleg svör. Ég mun nú enn reyna hvort ég fái þau svör hér og nú. Þó að ekki sé settur ákveðinn peningur til kjarasamninganna tel ég að fjárlagafrumvarpið eigi að taka mið af þeim veruleika sem fram undan er, taka mið af því að fram undan er mjög erfiður kjarasamningavetur. Aukning í almennum útgjöldum upp á 20%, útgjöldum sem eru fæst á nokkurn hátt tengd kjarasamningum, er því mjög óvarleg við þær aðstæður sem nú ríkja vegna kjarasamninganna.