135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:03]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um að við siglum með þanin segl og þörf sé á að rifa seglin og draga úr væntingum um batnandi kjör fólks í landinu. Er það ekki hlutverk okkar að bæta kjör fólksins í landinu? Verði væntingar manna um betri kjör að raunveruleika, er það ekki bara verkefnið sem við eigum að vera að vinna að? Auðvitað væntu menn bættra kjara síðustu ára áður en þau urðu að raunveruleika. Þau urðu að raunveruleika. Vorum við ekki að vinna vinnuna okkar og standa okkur bara nokkuð vel í því? Eigum við nú að snúa þessu við og draga úr væntingum um bætt kjör?

Það hlýtur þá annaðhvort að þýða að vænta eigi stöðnunar í kjörum eða búast við að kjörin versni. Eigum við að skapa slíkar væntingar? Er það hlutverk okkar? Ég held ekki. Ég held að okkar hlutverk sé að búa til væntingar um betri kjör og láta þær væntingar verða að raunveruleika. Það höfum við verið að gera og það ætlum við að halda áfram að gera.

Menn geta talað endalaust um tónlistar- og ráðstefnuhúsið. Það virðist vera endalaus uppspretta umræðu. Hv. þingmaður talar um að það sé byggt með tugmilljarða ábyrgð ríkissjóðs. Ef ég man rétt, ég fer með þetta eftir minni og þar skeikar kannski en ekki mjög miklu, þá er hlutur hins opinbera í þessum verkefnum 7 milljarðar og hann skiptist á milli ríkis og borgar í hlutföllunum 45% á móti 55%. Það er allt og reyndar greitt á um 30 ára tímabili.