135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:25]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að núverandi ríkisstjórn leggur áherslu á skattalækkanir. Það hefur hins vegar ekki verið útfært í hvaða formi það verður að öðru leyti en því að við vitum að við höfum tekið ákvarðanir um tekjuskattslækkanir á bæði fyrirtæki og einstaklinga í landinu. Það hefur líka verið rætt um hækkun skattleysismarka en það er allt óútfært.

Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að ráðast ekki í skattalækkanir fyrr en það er hagstætt fyrir hagkerfið þannig að það leiði ekki til verðbólgu. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi sérstaklega að bæta hag þeirra sem lægstu tekjurnar hafa og á það er jafnframt lögð áhersla í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Á því leikur enginn vafi.