135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:21]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hugsa að lífeyrissjóður opinberra starfsmanna fjárfesti erlendis að því marki sem lög heimila. Ég spyr: Er þá hv. þingmaður að leggja til að lögum verði breytt þannig að sá lífeyrissjóður og aðrir lífeyrissjóðir geti farið með fjármagn í erlendar fjárfestingar í auknum mæli frá því sem nú er? Þá þurfa menn að gá að því, við þá lagasetningu, að setja ákvæði sem rammaði af áhættustigið sem lífeyrissjóðurinn getur leyft sér í þeim erlendu fjárfestingum.

Það hefur ekki alltaf verið svo gæfulegt að fjárfesta erlendis, t.d. í bréfum sem hafa mátt þola gengisfellingu, í Bandaríkjunum og reyndar víðar. Niðursveiflunnar vegna ótryggra húsnæðislána í Bandaríkjunum hefur gætt um allan heim og hefur sjálfsagt komið víðar fram, jafnvel í óskyldum fjárfestingum erlendis. Þetta er vandasamt og menn þurfa að setjast niður og hugsa málið til enda. En ég er ekkert fjarri því að þetta geti verið ráð sem menn ættu að skoða til að færa úr íslenska hagkerfinu meira af peningum í fjárfestingu erlendis til að draga úr hinni miklu þenslu sem er m.a. haldið uppi af peningum úr lífeyrissjóðnum með fjárfestingu á einkamarkaði. Mér er ekki alveg grunlaust um að þessi mikli áhugi á að fjárfesta í íslenskum opinberum orkufyrirtækjum komi að einhverju leyti frá lífeyrissjóðum.