135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:15]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi akkúrat verið að nálgast kjarna málsins í máli sínu áðan. Það er um stöðu þingsins og þingnefndanna. Fjárlaganefnd Alþingis er ekki þannig búin að hún geti með sómasamlegum hætti afgreitt fjárlög hverju sinni. Í fyrsta lagi er takmörkuð sérfræðiþekking þar þrátt fyrir frábært starfsfólk og í öðru lagi er það gríðarlegt vinnuálag að ætla sér að afgreiða eitt fjárlagafrumvarp í október og nóvember, á 60 dögum. Það þarf að sjálfsögðu að breyta þessu verklagi og mikil umræða var um það í fjárlaganefnd.

Mér finnst t.d. mjög óþægilegt að við hv. þingmenn, að við tölum ekki um þingmenn í fjárlaganefnd þingsins, skulum sjá fjárlagafrumvarpið á sama tíma og fjölmiðlar landsins. Síðan eiga menn að koma í viðtal um hádegið og segja hvað þeim finnst um fjárlagafrumvarpið. Hvaða viti borin umræða getur orðið um fjárlagafrumvarpið? Að sjálfsögðu þarf að hleypa fjárlaganefndinni miklu fyrr að þessari vinnu. Ég held að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um að hv. þingmenn í fjárlaganefnd þurfi að minnsta kosti að vera búnir að fara yfir frumvarpið með þar til greindum ráðuneytum þannig að þeir séu reiðubúnir í þá umræðu sem hér fer fram. Auðvitað er umræðan dálítið yfirborðskennd, það verður að viðurkennast, því að aðalvinnan hefur ekki farið fram sem er að kafa ofan í frumvarpið og kynna sér allar forsendur á bak við það. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um það, og ég skal staðfesta það, að að sjálfsögðu hefur það verið framkvæmdarvaldið sem hefur verið hvað mest leiðandi í fjárlagagerðinni hingað til.