135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:18]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt gefið ágæta lýsingu á því hér í lokin, og kannski dæmt sína eigin ræðu á þeim forsendum, að menn hafi ekki haft nægan tíma til að kynna sér málið. Í meðförum fjárlaganefndar, þar sem hv. þingmaður var formaður, jukust útgjöldin svo að lækka varð lánshæfismat ríkissjóðs. Síðan kemur hv. þingmaður núna, með þetta orðspor ekki nema ársgamalt eða svo, tæplega ársgamalt, ber sér á brjóst og æpir yfir þingheim að mikilvægt sé og algerlega nauðsynlegt að draga úr þenslu. Þetta er náttúrlega mjög athyglisvert.

Í annan stað vil ég einmitt ítreka nauðsyn þess að styrkja stjórnarandstöðuna því að í umræðunni fyrr í dag kom fram að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði á svipuðum nótum og hv. þm. Birkir Jón Jónsson í umræðu utan dagskrár í gær. Hv. þingmaður og skuggafjármálaráðherra, Jón Bjarnason, talaði síðan fyrir frekari útgjöldum í dag.

Hv. þm. Bjarni Harðarson talaði í morgun um að hér væru á ferðinni kreppufjárlög. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kemur nú og talar um að hér séu á ferðinni þenslufjárlög. Það verður að segjast eins og er, með virðingu fyrir öllum, að það er þrautin þyngri að reyna að átta sig nákvæmlega á því hvað stjórnarandstaðan er að fara. Ég vil einfaldlega segja, og ég held að það sé afar mikilvægt, að við eigum að huga að stöðu þingsins til þess að umræðan geti orðið málefnalegri, uppbyggilegri og betri. Þannig gætum við hv. þingmenn, sem erum að reyna að átta okkur á því hvert stjórnarandstaðan er að fara í þessu tilviki og hvað hún er að segja, átt þess kost að eiga uppbyggilegar samræður um fjárlögin en ekki á þeim nótum sem hér hefur verið.