135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrning kröfuréttinda.

67. mál
[14:45]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Þessu frumvarpi er ætlað að leysa af gömul lög. Það er í sjálfu sér ekki alltaf rétt að leggja niður gömul lög, þau hafa reynst ákaflega vel (Iðnrh.: … vatnalögin?) en þarfnast úrbóta. Ég vil taka fram að hér er verið að breyta meginreglunni úr tíu ára fyrningu í fjögurra ára, en í raun hefur meginreglan verið fjögur ár vegna fjölda undantekninga.

Það er atriði sem ég vildi nefna hérna sem hæstv. ráðherra kom inn á í lok ræðu sinnar. Ég vek athygli á því að skv. 5. gr. fyrnast skuldabréf á tíu árum, eftirlaun skv. 6. gr. og framfærslueyrir á tíu árum en svo bregður við í 9. gr. að kröfur vegna skaðabóta fyrnast á fjórum árum. Þar er um umtalsverða breytingu að ræða og hallar þar á tjónþola.

Kröfur um skaðabætur eru ekkert nema framtíðarlífeyrir, annars vegar varanlegur miski og varanleg örorka, framtíðartekjur. Það er algjörlega augljóst að þessar framtíðartekjur ættu að lúta sömu reglum og eru í 6. gr. um eftirlaun og fleira slíkt. Ég skil ekki af hverju þetta ákvæði kemur inn, þessi fjögurra ára tími á skaðabótakröfu. Þetta lyktar einhvern veginn af tryggingafélögum. Mér sem gömlum lögmanni finnst sem verið sé að skjóta þessu inn að tilefnislausu.

Ég vek athygli á því að með þessu ákvæði er verið að skapa ákveðna réttaróvissu. Hún felst í því að í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um að það eigi að miða við hinn svonefnda stöðugleikatímapunkt og það liggur líka þannig að í umferðarlögum er sérstakt fjögurra ára fyrningarákvæði. Um þessar fyrningarreglur er engin réttaróvissa. Það er alveg skýr dómaframkvæmd og engin réttaróvissa. Með því að breyta þessu er verið að búa til réttaróvissu, hæstv. ráðherra, sem kallar á nýjar úrlausnir dómstóla og annað slíkt. Og það er algjör óþarfi að kasta þessu þannig inn í umræðuna.

Af hverju segi ég réttaróvissa? Jú, vegna þess að vísbending er gefin um svonefndan stöðugleikatímapunkt, þ.e. þegar hinn slasaði hefur náð þeirri heilsu eftir slys að ekki má vænta frekari bata. Þessi stöðugleikatímapunktur er iðulega ákvarðaður löngu eftir að hann er kominn á. Þegar lögmenn eru með tjónþola og skaðabótamál til meðferðar líður oft langur tími þangað til maður sannreynir eða fær vottorð frá lækni um að núna sé tímabært að kalla eftir endanlegu örorkumati. Þá getur matsnefndin, tveggja lækna mat eða örorkunefnd komist að þeirri niðurstöðu með matsgerð dagsettri á tilteknum degi að stöðugleikatímapunkturinn hafi dottið á fyrir tveimur árum og þá eru þegar liðin tvö ár af fyrningarfresti.

Ég beini þeim eindregnu tilmælum til nefndarinnar sem fjallar um þetta, viðskiptanefndar, að halda óbreyttum ákvæðum um fyrningarfrest skaðabótakrafna. Undantekningarákvæði í umferðarlögunum um fjögurra ára fyrningu þar heldur áfram en þetta varðar líka vinnuslys og það er mjög oft erfitt að sannreyna tjónið og tekur oft langan tíma. Það er um framtíðartekjur tjónþola að ræða. Það er verið að bæta tekjumissi til framtíðar og nákvæmlega sömu rök eiga við um skaðabætur skv. 9. gr. og lífeyri sem ætlaður er tíu ára fyrningarfrestur skv. 6. gr. þannig að ég vara við breytingum á fyrningarfresti skaðabótakrafna.