135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja í ræðu sinni áðan sem var sett í fjárlagafrumvarpið með bara einni lítilli setningu: Ríkinu er heimilt að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja.

Við höfum rætt um það á undanförnum þingum að sveitarfélögin sem áttu fyrirliggjandi hlut gætu leyst til sín þá hluti. Þegar þetta var til umræðu á Alþingi var látið í það skína að sveitarfélögin hefðu áhuga á því að kaupa hluti. Ég minnist þess að hér var einmitt flutt tillaga af, ef ég man rétt, hv. núverandi formanni þingflokks Samfylkingarinnar um að svo yrði gert og þannig yrði búið um hnútana fyrir einum þremur árum.

Þegar þetta er síðan selt af ríkinu án þess að nokkuð nánar sé kveðið á um er skýrt tekið fram, með leyfi forseta:

„Íslensk orkufyrirtæki sem stunda starfsemi sem fellur undir raforkulög í opinberri eigu mega ekki bjóða í eignarhlut íslenska ríkisins. Sama gildir um dótturfélög framangreindra fyrirtækja og önnur félög þar sem þau fara með yfirráð í skilningi samkeppnislaga.“

Það var því beinlínis verið að beina þessu í þennan farveg með markvissum, meðvituðum hætti enda þekkjum við síðan leikinn sem enn er ekki búinn. Ég spyr hv. þingmann: Hvað finnst hv. þingmanni um að fara svona aftan að hlutunum og reyna að fara að markaðsvæða orkuauðlindirnar á Reykjanesi með þessum hætti? Nákvæmlega eins standa nú Akurnesingar og Borgfirðingar gagnvart Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og þar með líka Deildartunguhver, að nákvæmlega á sömu setningu og nú stendur í fjárlagafrumvarpinu er hægt að láta (Forseti hringir.) Green Globe eða Globus Green eða hvað sem það heitir, (Forseti hringir.) Baug eða hvað sem er (Forseti hringir.) fá Deildartunguhver með sama hætti og nú er verið að gera með Hitaveitu Suðurnesja. Er hv. þingmaður sáttur við þessa meðferð mála?