135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[17:11]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta þetta, það er alls ekki svo sem hv. þm. Karl V. Matthíasson sagði áðan að allar þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á árangri einkarekstrar, bæði fjárhagslega og félagslega, séu á einn veg. Þær eru mjög misvísandi. Við leggjum áherslu á það að spyrja þriggja spurninga um hvert eitt verkefni; hvort það er betra fyrir viðkomandi sem á að njóta þjónustunnar, hvort það er betra fyrir þann sem á að borga þjónustuna eða hagkvæmara og hvort það er betra fyrir þann sem á að vinna við þjónustuna. Það er ekki endilega alltaf einhlítt já eða nei við öllum þessum spurningum. Gerðar voru tilraunir með að setja heilu sjúkrahúsin í einkarekstur á Norðurlöndunum, m.a. í Svíþjóð og Noregi, fyrir síðustu aldamót og nú eru menn að gera upp reynsluna af þeirri vegferð og það kemur til að mynda fram að fyrir Stokkhólmslén var miklum mun dýrara að hafa tiltekið sjúkrahús þar í einkarekstri. Þjónustan batnaði ekki mikið — það skal tekið fram að hún var mjög góð á þessu sjúkrahúsi fyrir — og vinnuöryggi starfsmanna varð ekki betra. Það er því ekki svo, hv. þingmaður, að við séum endilega að draga bara fram allt hið versta, við erum bara að segja: Það er ekki hægt að fullyrða fyrir fram eins og einn hv. þingmaður gerði áðan að einkarekstur sé einfaldlega betri og ódýrari. Það er bara ekki þannig, langt í frá. Það eru mjög misvísandi niðurstöður í þessum efnum og við getum ekkert fullyrt og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist án þess að leggja mat á árangurinn hér á landi, bæði fjárhagslega og félagslega.