135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[17:17]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Það er náttúrlega hægt að ræða þetta endalaust. Við erum að tala um grundvallarmál. En við eigum ekki að líta svo á að ríkisrekstur, bara af því að það er ríkisrekstur, hljóti að skila sem mestum ávinningi. Það er ekkert lögmál sem þarf að vera þar á milli. Margir hafa bent á að ýmis vandamál séu t.d. við Landspítala Íslands sem er ríkisrekinn og það megi stokka þar upp og það þurfi að skoða þann rekstur betur.

Grundvallaratriðið í málinu, það sem við samfylkingarmenn höfum haldið fram, er einfaldlega það að velferðarþjónusta sé tiltæk öllum þegnum samfélagsins. (ÁI: Við erum sammála um það.) Við erum sammála um það. Ef það er hagkvæmara og æskilegra að ríkið, sem veitir þessa þjónustu, kaupi hana af einhverjum einstaklingum úti í bæ frekar en að ríkisfyrirtæki sjái um hana, ef það kemur betur út að einkaaðilar sinni því afmarkaða verkefni hverju sinni, þá er það bara allt í lagi. Það finnst mér þurfa að koma fram í þessari umræðu og ekki síst vegna þess að talað hefur verið um að Samfylkingin vilji einkavæða allt o.s.frv. Það er ekki þannig. Við erum jafnaðarmenn og viljum byggja upp velferðarkerfið á Íslandi og við viljum nota öll góð meðul og ráð til þess að hægt sé að halda því áfram og efla það.