135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:55]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langaði til að segja nokkur orð um það góða mál sem hér er til umfjöllunar, flutt af þremur framsóknarmönnum og varðar skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

Þetta mál fellur ákaflega vel að þeim stjórnarsáttmála sem nú er starfað eftir í þessu landi því að þar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin vill skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja, m.a. með aðgerðum til að efla hátækniiðnað og starfsumhverfi sprotafyrirtækja …“

Með þessu ákvæði í stjórnarsáttmála hlýtur að mega gera sér vonir um að á þessu máli verði tekið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það væri óskandi, það er a.m.k. ekki spurning að Samfylkingin styður málið og þá er bara eftir að sjá hvað gerist í Sjálfstæðisflokknum.

Eins og hér hefur komið fram er þetta mjög mikið notuð aðferð hjá þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við og þau telja sig hafa náð miklum árangri með því að fara þessa leið. Það hefur löngum verið talað um það í okkar samfélagi að það skorti á samkeppni í atvinnulífinu, það skorti á fleiri störf sem verði til í tengslum við þekkingariðnaðinn. Þetta er einmitt mál til að ýta undir að svo geti orðið.

Það mætti kannski tala um velferðarkerfi atvinnulífsins með því að samþykkja tillögu sem þessa. Það getur vel verið að nota megi það orðalag og ég ætla ekkert að neita því að vissulega er með tillögu sem þessari og samþykkt tillögu sem þessarar verið að skapa sérstök skilyrði fyrir þau fyrirtæki sem oft hafa verið kölluð sprotafyrirtæki. Margir binda miklar vonir við það að með því að aðstoða þau frekar á þessum unglingsárum sé hægt að fjölga mjög störfum og vonandi þá um allt land. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni er talið að það taki 10–15 ár fyrir fyrirtæki sem þessi að komast þannig á legg að þau geti staðið sig.

Við höfum lagt mikla orku og mikla vinnu í það á síðustu árum að styrkja samkeppnisstöðu Íslands og okkur hefur orðið nokkuð ágengt í þeim efnum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ekki hafa náðst fram og það er talið miður. Hér er ekki verið að tala um eitthvert opið kerfi sem allir geti komist í gegnum án athugunar, heldur er talað um að hafa aðhald og að fyrirtæki séu metin áður en þau annaðhvort fá afslátt á skatti eða þá hreinar styrkveitingar. Auðvitað mundi fagfólk fara yfir það allt saman áður en einhverjar ákvarðanir eru teknar.

Aðalástæða þess að ég vildi taka þátt í þessari umræðu er sem sagt bara að koma því á framfæri að ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða og trúi því og treysti að það verði tekið alvarlega til athugunar að fara þessa leið sem svo margar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa farið.