135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:03]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2007, 103. máli þingsins á þskj. 103. Með frumvarpinu er lögð fyrir Alþingi endurskoðuð áætlun um tekjur í samræmi við endurskoðaða þjóðhagsspá og tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa fjárlagaliða ársins 2007. Frumvarpið byggir einnig á endurmati á helstu hagrænum forsendum fjárlaganna, áhrifum af lögbundnum útgjaldaliðum, samningum og ýmsum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um mál sem fram hafa komið eftir afgreiðslu fjárlaga.

Í fjárlögum fyrir þetta ár var áætlað að tekjuafgangur ríkissjóðs yrði 9,1 milljarður kr. en nú er áætlað að hann verði 66 milljarðar, eða 5,4% af vergri landsframleiðslu. Aðhald ríkisfjármála verður því mun meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir annað árið í röð. Aukinn tekjuafgang má fyrst og fremst rekja til meiri umsvifa og hærri tekna en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Er áætlað að tekjur ríkissjóðs verði um 72 milljörðum meiri en áætlað var í fjárlögum eins og nánar verður komið að síðar. Með frumvarpinu er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um 15,8 milljarða, en bent er sérstaklega á að greiðslur úr ríkissjóði aukast mun minna eða um tæplega 9,7 milljarða. Stafar það af því að nokkuð er um reiknaða liði sem færðir eru til gjalda en kalla ekki á greiðslur úr ríkissjóði.

Handbært fé frá rekstri, eða það fé sem regluleg starfsemi ríkissjóðs skilar, er áætlað að verði tæplega 53 milljarðar kr. í stað 6,7 milljarða eins og áætlað var í fjárlögum. Þrátt fyrir það verður lánsfjárþörf ríkissjóðs tæplega 13 milljarðar en reiknað var með tæplega 10 milljarða lánsfjárafgangi í fjárlögum. Stafar lækkunin, sem verður þrátt fyrir hækkun handbærs fjár, nær alfarið af tveimur tilefnum. Annars vegar leggur ríkissjóður Seðlabanka Íslands til 44 milljarða í eigið fé á árinu og hins vegar keypti ríkissjóður eignarhlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun um síðustu áramót fyrir um 30 milljarða kr. Í fjáraukalögum síðasta árs var gert ráð fyrir að þau viðskipti færðust á árið 2006 en samkvæmt samningum tók ríkissjóður yfir eignir og skuldbindingar Landsvirkjunar 1. janúar á þessu ári.

Gert er ráð fyrir að heildartekjur í ár verði 448 milljarðar kr. sem er tæplega 72 milljarða kr. hækkun frá þessu ári. Þar af eru skatttekjur tæplega 62 milljörðum meiri, vaxtatekjur 4,6 milljörðum hærri og tekjur af sölu eigna 5,7 milljörðum meiri en áætlað var. Hækkun skatttekna má rekja til breytinga á þjóðhagsforsendum fjárlaga og til niðurstöðu ríkisreiknings 2006. Þannig er því nú spáð að einkaneysla verði 3,9% meiri en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir sem stafar af meiri hækkun ráðstöfunartekna á mann en spáð var. Er nú gert ráð fyrir að ráðstöfunartekjur á mann hækki um 9,8% frá síðasta ári sem er 1,3% meira en í forsendum fjárlaga. Óbeinir skattar verða því um 26 milljörðum meiri en spáð var og má þar rekja 22 milljarða til meiri tekna af virðisaukaskatti. Beinir skattar á tekjur og hagnað hækka meira eða um 28 milljarða kr., þar af skilar tekjuskattur einstaklinga 15 milljörðum meira í tekjur og fjármagnstekjuskattur 12 milljörðum meira en áætlað var. Hækkun tekna má rekja til meiri hagvaxtar árið 2006 og meiri þjóðarútgjalda árið 2007 en forsendur fjárlaga byggðu á. Nánari grein er gerð fyrir tekjuspánni og forsendum hennar í frumvarpinu.

Útgjöld verða 15,8 milljörðum meiri en í fjárlögum. Stærstan hluta útgjaldanna, eða 10,7 milljarða kr., má rekja til ýmissa reiknaðra liða og ákvarðana sem hafa verið teknar til mótvægis lækkun fiskveiðiheimilda í þorskveiðum. Þar af vegur þyngst 4 milljarða reiknuð hækkun á afskriftum skattkrafna í kjölfar endurskoðunar á tekjuáætlun og í ljósi þróunarinnar árið 2006. Þá hækka reiknuð framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um 1,1 milljarð vegna tenginga framlaganna við tekjur ríkissjóðs, en þar að auki er sérstakt 700 millj. kr. framlag til sveitarfélaga sem standa höllum fæti.

Mótvægisaðgerðir kosta samtals 1,3 milljarða á þessu ári og þar til viðbótar kemur 1,2 milljarða kr. stofnframlag til Byggðastofnunar sem ekki er fært til gjalda. Samtals nema því mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar 2,5 milljörðum kr. Eru þær aðgerðir miðaðar við að styrkja atvinnu og menntun á þeim svæðum sem talið er að verði fyrir mestum neikvæðum áhrifum af minni þorskafla. Er gert ráð fyrir að um tímabundinn vanda sé að ræða þar til hægt verður að auka við kvótann. Birt er sérstakt yfirlit yfir aðgerðirnar í greinargerð frumvarpsins sem nema samtals 1,3 milljörðum kr. eins og áður sagði. Aðgerðirnar skiptast í verkefni sem ætlað er að hafa bein áhrif strax og ýmsar aðgerðir sem bæta stöðu sjávarbyggðanna til lengri tíma litið. Aðgerðirnar snúa að einstaklingum, að fyrirtækjum og sveitarfélögum.

Þá má nefna að vegna breytinga á reikningsskilum ríkissjóðs er 1,1 milljarður kr. færður til gjalda vegna mismunar á fjármögnunarkostnaði og útlánsvöxtum á lánum til leiguíbúða. Núvirtur vaxtamunur er færður í einu lagi en ekki dreift á lánstímann. Áætlað er að vaxtagjöld verði 1,2 milljörðum hærri en í fjárlögum, þá greiðir ríkissjóður 1,1 milljarði meira í fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar af Hitaveitu Suðurnesja og af meiri vaxtatekjum af sjóðsstöðu sem hefur batnað með betri afkomu innan ársins. Aðrir reiknaðir liðir eru sem dæmi aukin fasteignagjöld sem ríkissjóður greiðir, framreikningur á útgjöldum vegna búvörusamninga og áhrif kjaraúrskurðar. Á móti kemur að atvinnuleysi verður minna en spáð var sem lækkar útgjöld um 1,3 milljarða og vaxtatekjur ríkissjóðs verða 500 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Helstu breytingar á útgjöldum sem eru stefnumarkandi eru hækkandi útgjöld almannatrygginga um tæplega 600 millj. kr. vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að afnema tengingu lífeyris við atvinnutekjur 70 ára og eldri auk þess að ríkisstjórnin ákvað að flýta gildistöku ákvæða í samkomulagi við félag eldri borgara. Loks má nefna sem stefnumarkandi útgjöld að ríkissjóður ákvað að greiða sérstakt 700 millj. kr. framlag í jöfnunarsjóð vegna þeirra sveitarfélaga sem höllum fæti standa. Verða sérstök framlög ríkisins í sjóðinn þá samtals 1,4 milljarðar kr.

Herra forseti. Mun ég nú víkja nánar að lánsfjármálum ríkissjóðs árið 2007, skv. 2. og 3. gr. frumvarpsins. Í 3. gr. er farið fram á að lántökuheimildir ríkissjóðs aukist úr 30 milljörðum í tæplega 61 milljarð kr. Munar þar mestu um 26,8 milljarða kr. lántöku vegna kaupa ríkissjóðs á eignarhlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Að öðru leyti er auknum lánsfjárheimildum varið til að endurfjármagna ríkissjóð. Er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði niður skuldir er nema 33,6 milljörðum þannig að nettólántökur verða 27,3 milljarðar kr.

Í 3. gr. er lögð til 27,2 milljarða kr. hækkun á ríkisábyrgðum sem veittar eru aðilum sem hafa heimild til lántöku samkvæmt sérlögum. Þar af eru 21,7 milljarðar vegna meiri lánsfjárþarfar Íbúðalánasjóðs en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga og 6 milljarðar vegna Landsvirkjunar. Þar munar mestu um 3 milljarða lántöku fyrirtækisins vegna yfirtöku Landsnets á flutningslínum Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja og 2,3 milljarða auknum afborgunum af teknum lánum. Eins og fram hefur komið er áætlað að handbært fé úr ríkissjóði verði tæplega 46 milljörðum kr. meira en áætlað var í fjárlögum, eða samtals 52,6 milljarðar kr. Á móti kemur að áætlað er að fjármunahreyfingar verði neikvæðar um samtals 65,5 milljarða kr. Munar þar mestu um stofnfjárframlög og kaup á eignarhlutum í félögum fyrir 77 milljarða kr. Þar af eru 44 milljarðar kr. aukin stofnframlög til Seðlabanka Íslands og áðurnefnd kaup ríkissjóðs á eignarhlut Reykjavíkur og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun 30,3 milljarðar kr. Þar að auki er gert ráð fyrir að auka eigið fé Byggðastofnunar um 1,2 milljarða kr. og er það hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þá er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi til allt að 400 millj. kr. hlutafé í eignarhaldsfélagið e-Farice ehf. vegna áforma um nýjan sæstreng til meginlands Evrópu um Danmörku. Loks er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram 150 millj. kr. eigið fé til Matíss ohf., en þar af eru framlagðar eignir umfram skuldir 68 millj. kr. og 82 millj. kr. í reiðufé. Er þar um að ræða hlutafé í samræmi við lög um stofnun félagsins og áætlanir um nauðsynlega eiginfjárstöðu fyrirtækisins við stofnun þess samkvæmt áætlunum Ríkisendurskoðunar þar um. Á móti auknum eiginfjárframlögum í félögum kemur að ríkissjóður seldi á árinu hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og nam söluandvirðið 7,6 milljörðum kr.

Að öllu samanlögðu verður hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs því 13,8 milljarðar kr. og eins og áður sagði verða lántökur umfram afborganir 27,3 milljarðar. Þá verða 4 milljarðar greiddir inn á lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs hjá B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og staðan við Seðlabanka bætt um 9,5 milljarða kr.

Herra forseti. Hef ég nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins sem sýna að staða ríkissjóðs er sterk og mun betri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Þannig verður tekjuafkoman 66 milljarðar kr., staðan við Seðlabanka er yfir 100 milljarðar og verulegir fjármunir hafa farið til að lækka skuldbindingar ríkissjóðs á næstu árum.

Legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins.