135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:38]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég hef svo oft tekið umræðu um útfærsluna á veiðigjaldinu, þ.e. að grunnurinn er fundinn fyrir fram og síðan er gjaldið innheimt árið á eftir, og bent á að þetta er svona svipaður galli og þegar við vorum með tekjuskattskerfið og fengum skattinn eftir á. Við vissum ekki hvaða tekjur við hefðum árið á eftir þegar við áttum að greiða tekjuskattinn af árinu á undan. Væntanlega tókum við þess vegna upp staðgreiðslukerfi sem ég held að þjóðin mundi í flestum tilfellum ekki vilja losna við í dag.

Kannski er megingallinn á þessari útfærslu sá að við erum að reikna okkur verðmæti frá maí út apríl og síðan er fundinn út tekjugrunnurinn þar, þ.e. heildaraflaverðmætið, teknir frá aflahluta olía og annar rekstrarkostnaður. Út á þorskígildisfjöldann finnum við svo afkomuna og greiðum stærstan hluta gjaldsins á þessu fiskveiðiári miðað við tekjustofninn eins og hann var á síðasta fiskveiðiári. Þetta er bara staðreynd máls og það er náttúrlega í grunninn gallað að kerfið skuli vera með þessum hætti.

Það var þó á tímabili annað kerfi uppi vegna þess að það var enginn kvótaútreikningur á sóknardagabátana og þá greiddu þeir veiðigjald af afla ársins miðað við landaðan afla. Það form held ég að ætti að vera á þessu, þ.e. að menn greiddu veiðigjaldið miðað við raunverulegan stofn og greiðslugetu landaðs afla, aflaverðmæti sem menn fá í hverjum mánuði og síðan þyrftu menn kannski að hafa mánaðargreiðslufrest til að skila gjaldinu eða eitthvað svoleiðis eða skila því á þriggja mánaða fresti miðað við raunverulegt aflaverðmæti í mánuðunum á undan. Ég held að það væri skárri útfærsla og endurtek ábendingar mínar til hæstv. sjávarútvegsráðherra í þá veru eins og ég hef reyndar oft gert áður þegar við höfum rætt útfærslu á veiðigjaldinu.

Það er hins vegar rétt að benda á það að það frumvarp sem við erum að ræða er tvenns konar, annars vegar um niðurfellingu á veiðileyfagjaldi á rækju, djúphafsrækju og rækju á Flæmingjagrunni, og hins vegar um niðurfellingu á veiðigjaldinu af því sem nemur af þorskígildisverðmætunum. Við erum þar af leiðandi að lækka veiðigjaldið um u.þ.b. 275 millj. á hverju ári, a.m.k. á þessu fiskveiðiári og sennilega næsta ef svo heldur fram sem horfir en samt er rétt að vekja athygli á því, hæstv. forseti, að þó að þetta sé gert er veiðigjaldið á þessu fiskveiðiári sem útgerðin greiðir tæplega helmingi hærra en það var á fiskveiðiárinu í fyrra, yfir 800 millj. á móti 429 millj. eins og það var, sýnist mér, miðað við þá töflu sem ég er með fyrir framan mig. En nóg um það, hæstv. forseti.

Ég hef hins vegar talið að eins og staðan hefur verið í rækjuveiðunum á undanförnum árum væri orðið meira en tímabært hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að taka úthafsrækjuna út úr kvóta. Ég sé engin skynsamleg rök fyrir því að hafa hana inni í kvóta og að menn leigi sem sagt hverjir öðrum aflaheimildir af fisktegund sem hefur ekki veiðst upp í kvóta árum saman. Það eru engin rök fyrir því og ég held reyndar að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé á mjög hæpnum lagagrundvelli að gera þetta svona. (Gripið fram í.) Grunnurinn fyrir því að takmarka atvinnufrelsið eins og því hefur verið haldið fram almennt í fiskveiðistjórnarlögunum er að menn þurfi að vernda og stýra fiskveiðunum til að halda því innan einhverra ákveðinna marka sem menn hafa viljað stefna að. Við höfum á undanförnum árum í úthafsrækjunni verið langt innan þeirra marka sem við höfum stefnt að að veiða og lagt hefur verið til í veiðar og hafa þær þó ekki verið miklar. Reyndar hefur Hafrannsóknastofnun sagt í skýrslu sinni sem er á borðinu mínu frá því í vor að veiðar á rækju séu ekki ráðandi um stærð rækjustofnsins, þorskgengdin á miðunum sé ráðandi um stærð rækjustofnsins. Það vekur auðvitað athygli mína, af því að ég hef gaman af því að lesa svona skýrslur frá Hafró, að sjá að þorskgengdin á rækjumiðunum hefur vaxið mikið öll síðustu ár, mjög mikið, það er mjög vaxandi þorskgengd á rækjumiðunum. En auðvitað gera fiskifræðingarnir ekkert með það, enda hafa þeir tekið þá trú að þorskstofninn sé að hrynja. Þeir hafa haldið þeirri trú núna í 35 ár og hafa á 5–7 ára fresti komið með spár um að stofninn væri að hrynja. Þess á milli hafa þeir svo bætt við heimildum. Þetta veit ég að hæstv. ráðherra veit mætavel, alveg jafn vel og ég, þetta er bara saga staðreynda um það hvernig Hafrannsóknastofnun hefur lagt til niðurskurð annað slagið og nánast hrætt þjóðina upp úr skónum á 5–7 ára fresti með sögum um að allt væri að fara fjandans til, nú síðast með þessari 130 þús. tonna tillögu sem aldrei skyldi verið hafa.

Ég beini því til hæstv. sjávarútvegsráðherra þar sem við erum hér að tala um rækjukvótann að það verði hreinlega sett í það vinna í ráðuneytinu að skoða hvort það standist lengur að hafa takmörkun á atvinnufrelsi manna við að veiða rækju, hvort það beri ekki að gefa þær veiðar bara frjálsar. Ég held að það sé miklu nær, hæstv. ráðherra, en að hafa þetta eins og þetta er í dag enda lét hæstv. ráðherra þess getið hér í umræðu um fyrra mál að hann hefði til þess völd. Hann hefur staðið fyrir því að vera með steinbítinn inni í kvóta eða utan kvóta og sett hann svo aftur inn í kvóta eins og við vitum báðir og hann nefndi sérstaklega í ræðustól áðan. Það eru reglugerðarheimildir sem stjórna því hvort fisktegund sé kvótabundin. En það er rétt að vekja enn einu sinni athygli á því að þeirri virðulegu fisktegund sem fékk að flakka inn og út úr kvóta, steinbítnum, hefur aldrei vegnað betur en í þessu flakki inn og út, það hefur ekkert komið fyrir hana. Hún er bara í þessu fína lagi eins og hún hefur alltaf verið og veit ekkert af því hvort hún er inni í kvóta eða utan kvóta þannig að … (Gripið fram í.) Nei, það virðist ekki hafa haft nein sérstök áhrif. Að vísu hafa menn borið gæfu til þess, og ber að hæla ráðherranum fyrir það, að loka ákveðnum veiðisvæðum þar sem steinbíturinn hrygnir og það þarf vafalaust að fara að gera það á fleiri stöðum, takmörkuðum blettum. Það er vitað að steinbíturinn hrygnir á fleiri stöðum en á Látragrunni eða þeirri frægu slóð sem menn kalla ofan við A-götu. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu hér hvers vegna miðið heitir það en mér er sagt að það hafi fæðst á götuhorni úti í Berlín í Þýskalandi fyrir mörgum árum. Það er önnur saga.

Ég beini því hins vegar til hæstv. ráðherra að hann fari að skoða í alvöru hvort ekki sé rétt að auðvelda mönnum veiðarnar með því að fækka kvótabundnum fisktegundum, auðvelda mönnum að komast að og ég ítreka einnig það sem ég sagði fyrr í dag að ég tel að það þurfi að skoða veiðisvæðin, sérstaklega að því er varðar ýsuna, upp á nýtt og heimildir manna til að veiða ýsu. Samt verða menn að fara varlega í því. Ég er ekki þar með að mæla fyrir því sérstaklega að menn opni inn á alla flóa og firði fyrir snurvoð eða togveiðar en það eru nokkur góð ýsusvæði verulega fjarri landinu sem nánast eingöngu eru nýtt af togveiðiskipum. Ég held að menn ættu að skoða það í alvöru að það er ekki ástæða til að halda veiðisvæðum þar sem má veiða góðan ýsuafla eins og á svæðinu kringum Hornbankann lokuðum árum saman vegna trúarbragða, trúarbragða um að þetta sé eitthvert sérstakt svæði sem ævinlega þurfi að vera lokað.

Ég beini því til hæstv. ráðherra að það verði skoðað. Við ætlum væntanlega að reyna að ná upp þessum mikla afla af ýsu sem við stefnum að og það er þáttur í því að útgerðin komist af, ekki bara það að draga úr veiðigjaldinu heldur líka það að útgerðin nái að veiða þessar heimildir og sjómenn geti framkvæmt veiðarnar skynsamlega og eðlilega. Nógu erfitt verður samt, hæstv. ráðherra, að umgangast veiðislóðina þannig að mönnum líki vel. Það er ömurlegt að vera sjómaður og þurfa að umgangast veiðislóðina með þeim hætti vegna reglna um að mönnum líki ekki vinnan sín en það er akkúrat hættan sem við erum að bjóða mönnum upp á. Þess vegna ber hæstv. ráðherra að gera allt sem hann getur til að auðvelda það að stunda fiskveiðarnar með eðlilegum hætti og það er þess vegna sem við höfum í velvilja í Frjálslynda flokknum lagt til að auka þorskveiðarnar um 40 þús. tonn þannig að það megi komast út úr þeirri krísu sem við erum í. Það er vel meint, hæstv. ráðherra, alveg sérstaklega gagnvart byggðunum í landinu.

Við fáum vonandi að fara yfir það síðar í dag þegar við ræðum það mál og þau fjöldamörgu rök sem við bendum á í því sambandi en ég ætla ekki að ræða það sérstaklega hér. Hér er verið að ræða um veiðigjaldið á næsta ári og ég hef að venju bent á galla þess hvernig það er uppbyggt. Ég benti á það strax í upphafi þegar þetta var búið til, þessa eftiráinnheimtu miðað við tekjur ársins á undan sem ekkert endilega fara saman. Núna þegar við erum að horfa á tekjur frá fyrra ári upp á 85 milljarða á viðmiðunartímabilinu en skerum svo þorskinn niður um 63–64 þús. tonn er alls ekki víst þó að fiskverð sé hátt um þessar mundir að tekjugrunnur útgerðarinnar dugi til að greiða það veiðigjald sem hér er. Það er áætlað 2,42 pr. kg en var 0,91 í fyrra. Þrátt fyrir að menn dragi það niður um 275 millj. sýnist mér að veiðigjaldið verði samt 813 millj. á þessu ári í staðinn fyrir 429 millj. á árinu sem var að líða.