135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[20:09]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Frumvarp til laga sem lagt hefur verið fram um breytingu á vatnalögum er staðfesting á þeim sjónarmiðum að þjóðin sé eigandi auðlinda landsins, sjávarins og jarðarinnar, þær séu sameign þjóðarinnar. Þetta hefur þráfaldlega komið fram í umræðunni, líka í morgun í umræðu um orkumál og eignarhald þjóðarinnar á orkunni, heita vatninu.

Hins vegar finnst mér í þessari umræðu, þegar við erum að ræða um þetta, mikið talað um arð. Við tölum mjög mikið um peninga, hvað auðlindirnar gefi mikinn arð o.s.frv. Það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu, í sambandi við vatnið, er að hver einstaklingur hafi sitt vatn. Það er bara hluti af því að vera frjáls manneskja, að geta lifað óttalaus við að verða vatnslaus. Þurfa ekki að óttast að fá ekki vatn. Eins er þetta með fiskinn. Þetta tengist frelsi mannsins til að lifa en ekki að hugsa endilega um allt sem peninga (Forseti hringir.) sem eigi annaðhvort að renna í ríkissjóð eða til ákveðinna einstaklinga.