135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:24]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson má haga málflutningi sínum eins og hann vill. En engum sem sat í salnum og hlustaði á hv. þingmann lesa upp nöfn allra flutningsmanna, og lýsa því svo yfir að loksins hefðu þessir einstaklingar fundið hugsjónum sínum verðugan farveg, gat dulist við hvað var átt. Og hvaða hugsjónir voru það? Það var að koma meira brennivíni ofan í fólkið.

Vitanlega eru þetta ekki þær hugsjónir sem við 17 sem stöndum að þessu máli erum að berjast fyrir og það veit hv. þingmaður mjög vel. Hann nálgast þetta mál með þeim hætti að reyna að lítilsvirða þá sem standa að því að reyna að efla og auka frjálsa verslun í landinu. Mér er fullkunnugt um það að ef hv. þingmaður mundi ráða einhverju þá yrðu hér engar framfarir. Ég er viss um að hv. þingmaður hefur verið á móti því á sínum tíma að leyfa innflutning og sölu á bjór, ég er alveg klár á því. Það væri ágætt að fá upplýsingar um það hvort hv. þingmaður telur að það hafi verið skynsamlegt skref að leyfa sölu á áfengum bjór. Ég er ekki viss um að hann hefði greitt því atkvæði á sínum tíma. Þegar maður hlustar á hv. þm. Ögmund Jónasson segja að hann hafi orðið fyrir nokkuð miklum vonbrigðum með frumvarpið, það sé svo óskaplega íhaldssamt og afturhaldssamt, legg ég til að þeir sem hér eru hlusti á það sem hann hefur sagt í þessu máli. Það er eitthvert argasta afturhald sem til er í þessu þjóðfélagi. Það er bara þannig.

En ég bið hv. þingmann, þegar hann fjallar um þessi mál, að reyna að gera það efnislega, ekki reyna að lítillækka þá sem að málinu standa og saka þá um að þjóna hagsmunum eða ganga erinda einhverra viðskiptablokka í samfélaginu.