135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:29]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta mál snýst fyrst og fremst um verslunarrekstur var sagt hér sem var nú annað en mátti heyra á flutningsmanni í dag og þeim sem hafa talað á eftir honum, að þetta snúist ekki um verslunarrekstur. Rökin á bak við þetta áttu ekki að vera á götum verslunar í landinu eða snúast um verslunarrekstur, það er alveg nýr flötur á málinu sem ég er að heyra núna.

Nokkur rök hafa verið talin upp um þetta, annars vegar að bætt aðgengi að áfengi hafi ekki áhrif á áfengisneyslu. Það er beinlínis rangt, um það vitna fjölmargar rannsóknir, bæði á neyslu áfengis og á neyslu annarrar vöru líkt og með neyslu á óhollum mat, ruslfæði, sem er verið að reyna að berjast gegn víða um heim, bæði austan hafs og vestan og hér líka með því að takmarka t.d. aðgengi barna að ruslfæði í skólum eða í nálægð þeirra í þeim tilgangi að draga úr neyslunni. Það sama á við hér eins og margsinnis hefur verið sýnt og sannað, aðgengi að áfengi eykur neysluna, þannig að þau rök detta um sjálf sig.

Það hefur verið minnst á það hér í dag að þrátt fyrir há gjöld á sykurvörum, gosdrykkjum o.fl. dugi það ekki til að draga úr neyslu. Það skyldi þó ekki vera út af því aðgengi að gosdrykkjum og sykurvörum og ruslfæði almennt sem er mjög mikið hér á Íslandi? Því er haldið mjög stíft að þeim neytendum sem er verið að sækja að með þessa vöru, þ.e. börnum og unglingum.