135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

afgreiðsla iðnaðarnefndar á frumvörpum til vatnalaga.

[13:44]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til mikillar hugaræsingar í þessu máli. Það var fullkomlega eðlilegt að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gerði þinginu grein fyrir því að á fundi iðnaðarnefndar í hádeginu felldi meiri hlutinn tillögu frá henni þess efnis að fyrir þingið kæmi frumvarp frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að vatnalögin illræmdu, eða frumvarpið sem enn er, yrðu felld úr gildi, að þetta frumvarp kæmi til kasta þingsins á sama tíma og frestunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar. Þarna er einfaldlega verið að gera þinginu grein fyrir þessum vinnubrögðum.

Varðandi hinar pólitísku hliðar þessa máls var á sínum tíma einhugur með Samfylkingunni, Frjálslynda flokknum og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um að vatnalagafrumvarpið ætti með öllu að fella úr gildi, það ætti aldrei að koma til framkvæmda. Við stöndum enn við þá skoðun. Jafnframt höfum við hrósað hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að leggja fram frestunartillögu í málinu. Eins og kom fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur studdum við þá tillögu og styðjum að hún nái fram að ganga á tilsettum tíma þannig að það er enginn ágreiningur um þetta efni.

Ég vakti einnig athygli á því í þingræðu þegar þetta mál kom til umræðu fyrir fáeinum dögum að formaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir á sínum tíma, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að þetta mál yrði ekki undir nokkrum kringumstæðum afgreitt óbreytt frá þinginu. Við höfum skuldbindandi yfirlýsingar frá oddvita annars stjórnarflokksins og frá hæstv. iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) jafnframt um að á þessu þingmáli verði gerðar grundvallarbreytingar. Það er að sjálfsögðu fyrir öllu.