135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:35]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Í umræðunni sem hér fer fram um Grímseyjarferjuna svokölluðu hefur ekkert nýtt komið fram nema, eins og skýrt var frá hér í upphafi, að ágreiningnum um túlkunina er lokið og það er gott.

Ég ætla á þeim fáu mínútum sem mér eru ætlaðar í þessari umræðu að fara aðeins yfir málið eins og það er statt núna. Ég hef nýlega farið í enn eina ferðina út í Hafnarfjörð í Grímseyjarferju, kynnt mér stöðu verksins og rætt við verktakana sem þar vinna, þ.e. eigendur vélsmiðju Orms og Víglundar. Þeirra verk er nokkurn veginn á þeirri áætlun sem gerð var eftir að sú verkefnastjórn sem ég skipaði tók við málinu. Stefnt er að því að verkinu ljúki í lok nóvember að mestu leyti. Ég er sæmilega bjartsýnn á það og vona að skipið verði tilbúið í byrjun ársins 2008. Nú eru um 20 til 25 manns að vinna um borð í skipinu og vinna þar hörðum höndum sex daga vikunnar.

Aftur að þeirri verkefnastjórn sem ég gat um áðan — verkefnastjórn sem skipuð var en ekki nefnd — en hún gengur þannig frá núna, vegna þess að hv. þm. Birkir Jón Jónsson málshefjandi talaði um aukaverkin, að nú er samið um hvert einasta aukaverk með undirskrift. Þannig er þetta unnið í dag. Vonandi er að ferjan verði tilbúin á þeim tíma sem ég nefndi áðan.

Í umræðunni í þjóðfélaginu hefur verið talað um kröfur Grímseyinga en ég vil ekki orða það þannig, tala um kröfur Grímseyinga. Þeir setja ekki fram neinar kröfur. Þeir hafa hins vegar komið með ábendingar um hvernig þessi ferja þurfi að vera, hverju hún þurfi að vera búin til að uppfylla það sem hún á að gera, þ.e. þjóna íbúum Grímseyjar með vöruflutningum til og frá og þeim fjölmörgu ferðamönnum sem sækja Grímsey heim. Þær ábendingar hafa verið teknar til greina. Sumt af því var sett inn í útboðið, annað ekki.

Ég er með öðrum orðum að segja, og ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að notendur mannvirkja, sama hvort það er opinbert hús eða í þessu tilfelli ferja, eigi að hafa töluvert um það að segja og eigi að geta komið því til hönnuða hvernig hlutirnir þurfi að vera að þeirra mati. Ég held að í verkefnastjórninni hafi það verið gert.

Ég sé það núna að tíma mínum er lokið. Ég vil segja það að lokum vegna bréfs sem hv. þm. Jón Bjarnason ritaði okkur fyrir hönd vinstri grænna (Forseti hringir.) að Grímseyingar verða boðaðir á fund verkefnastjórnar sem átti að vera á morgun en mun verða frestað um eina viku vegna þess að fulltrúi frá (Forseti hringir.) NAVIS er ekki á landinu. En hann þarf að vera á þeim fundi.