135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:38]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Reyndar held ég að ýmsir séu farnir að ræða auglýsingar á alls konar óhollustumat, ég vil ekki fara út í það. Það sem ég er að segja er að reynsla okkar af þessu efni, alkóhólinu, er mjög slæm og áfengisneysla á Íslandi hefur stóraukist síðustu ár, ég held bara um 5–7 lítra á hvern einstakling síðustu 15 ár, eitthvað svoleiðis, af hreinum vínanda. Ástæða þess er sú að aðgengi hefur aukist og það hefur verið mun auðveldara að komast í vín. Þess vegna hafa orðið aukin læti og hamagangur hér í borginni og víðar, á útihátíðum og annars staðar, sem menn hafa verið að tala um.

Hv. þingmaður talar um að skortur valdi því að menn fari að hamstra og það er alveg rétt en er einhver skortur á alkóhóli á Íslandi? Ég hef ekki orðið var við það. Það er offramboð í mínum huga. Ég er ekki sammála því að draga þetta inn í umræðuna. Það er enginn skortur. Það er styttra fyrir hv. þingmann að fara út í búð hér til að kaupa alkóhól en að kaupa ost.

En fyrst verið er með þessar líkingar við matvæli og annað, segjum sem svo ef búið væri að raða rjómatertum á borðin hér frammi, þá mundu menn fara í þær en þegar þær eru ekki fyrir hendi eru menn ekki að borða þær, sem betur fer fyrir suma sem þyrftu að fara að hugsa um það, sérstaklega þegar þeir eru orðnir fimmtugir, að þeir ættu kannski að borða minni rjóma. En rjómi og feitmeti (Forseti hringir.) hefur önnur áhrif á sálarlíf og anda manna en alkóhólið.