135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:42]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans áðan og bendi á að með frumvarpi því sem hér er verið að ræða verður vissulega breyting á framboði, það verður með öðrum hætti en verið hefur. Það er alveg augljóst að það verður mismunun meðal þegnanna verði þetta frumvarp samþykkt óbreytt, þjónusta verður verri á tilteknum stöðum á landinu eftir að frumvarpið nær fram að ganga, þ.e. að litlum útsölustöðum ÁTVR sem eru í dag víða um land verður væntanlega lokað. Það þýðir að við erum að skerða þá þjónustu sem fólkið sem býr á þessum stöðum býr við og þetta mun skerða möguleika þeirra aðila sem ferðast um landið til að nálgast þessa vöru.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Getum við í raun samþykkt frumvarpið eins og það er lagt hér fyrir, að miða einungis við léttu vínin? Erum við ekki að mismuna þegnunum á þennan hátt því að þetta kemur augljóslega mismunandi niður á landsmönnum eftir því hvar þeir búa?