135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun.

[10:48]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Upphrópanir hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar um einkavæðingu Landsvirkjunar eru tilhæfulausar og tilefnislausar. Um það hefur hæstv. forsætisráðherra tekið af skarið.

Það er hins vegar einkennilegt að þær upphrópanir komi frá Framsóknarflokknum þó hann hafi verið, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson sagði, leiddur í bandi. Því það var einmitt formaður Framsóknarflokksins sem flutti eigendavaldið í Landsvirkjun yfir í fjármálaráðuneytið. Það var undir forustu Framsóknarflokksins að hluturinn í Hitaveitu Suðurnesja var seldur, sem hefði út af fyrir sig verið í lagi ef iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins hefði ekki skilið eftir svo handónýtt laga- og regluverk um orkuiðnaðinn í landinu að hér logar allt stafna á milli í illdeilum — vegna viðskilnaðar Framsóknarflokksins eftir tólf ár.

Það er rétt, sem komið hefur fram, að það er verkefni ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að taka á þeim málum og skýra þau og tryggja þar í senn almannahagsmuni og eignarhald á veitukerfum og orkulindum og aðkomu einkafyrirtækja og virkjun þeirra í orkuiðnaði og einkum á sviði útrásar.

En það verður enn kostulegra að heyra hv. formann Framsóknarflokksins hrópa hér um þessi mál þegar til þess er litið að það var líka Framsóknarflokkurinn sem árið 1997 gerði auðlindir í jörðu að einkaeign. Gerði það sem er 400 metrum undir jörðu, öll háhitasvæðin í landinu, að einkaeignarréttarlegum eignum og hafði þannig sérstaka forustu um að breyta almannaeignum í einkaeign. En kemur hér nú í stjórnarandstöðu og hrópar upp um einkavæðingu og auðmenn. Það er sannarlega ekki trúverðugt, herra forseti.