135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[11:44]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til þrenns konar breytingar á raforkulögum. Í fyrsta lagi er breyting á skilgreiningu laganna á stórnotanda, í öðru lagi lögbinding á tilteknum verkefnum sem tengjast neyðarsamstarfi raforkukerfisins og í þriðja lagi breytingar á fjárhæð gjalds vegna eftirlits sem af lögunum stafar.

Að því er varðar hina fyrstu breytingu er það svo að í raforkulögum er kveðið á um að stórnotandi sé sá notandi sem notar á einum stað 14 megavatta afl með árlegum nýtingartíma sem er a.m.k. 8 þús. stundir eða meira. Þeir sem nota svo mikið af orku geta tengst flutningskerfi raforkunnar beint en ekki um dreifiveitu og fyrir vikið greiða þeir fyrir flutning raforkunnar samkvæmt gjaldskrá fyrir stórnotendur.

Nú er það svo að til þessa hafa eingöngu stóriðjuver fallið undir skilgreiningu laganna eins og hún er í dag á stórnotanda. Því er hins vegar ekki fyrir að synja að á síðustu mánuðum hafa ýmsir aðrir aðilar sem vilja starfrækja þjónustu sem er orkufrek og með háan nýtingartíma sýnt áhuga á að koma upp starfsemi hér á landi sem krefst ekki að öllu leyti jafnmikils afls. Þeir ná þar af leiðandi ekki þessu lágmarki sem núna er að finna í lögunum. Hér er sérstaklega um að ræða tiltekna þætti og afbrigði af gagnamiðstöðvum sem er ekki óskyld netþjónabúum, litlar gagnamiðstöðvar sem t.d. væri hægt að koma fyrir úti á landsbyggðinni. Aðilar sem reka slík fyrirtæki hafa sýnt þessu áhuga. Þótt starfsemi af þessu tagi hafi háan nýtingartíma getur hún verið nokkuð undir þeim aflmörkum sem lögin kveða á um núna og til að tryggja þessum aðilum svipaða stöðu og öðrum fyrirtækjum er lagt til að aflmörk verði lækkuð úr 14 megavöttum í 8 megavött.

Að því er varðar þann hluta þessa frumvarps sem lýtur að neyðarsamstarfi er það svo að í raforkulögum og reglugerðum sem þeim tengjast er ekki fjallað um þætti sem lúta að neyðarstjórnun eða hver sé ábyrgur fyrir skipulagningu og samræmingu viðbragða við neyð í raforkukerfinu.

Forsvarsmenn Landsnets stóðu fyrir fundi árið 2005, þ.e. höfðu frumkvæði að því með hagsmunaaðilum innan raforkugeirans þar sem þessi mál voru rædd. Þar var skilgreint hvers eðlis slík verkefni væru, þ.e. samræming neyðarviðbragða framleiðenda, flutningsaðila, dreifiveitna og stórnotenda og samvinna við opinbera aðila eins og t.d. Almannavarnir og með hvaða hætti væri best að bregðast við því af löggjafans hálfu til að tryggja sem bestan viðbúnað ef einhvers konar stóráföll kæmu upp. Hér væri t.d. hægt að hugsa sér einhvers konar hamfarir, bilun í stóriðjuveri eða einhvers konar meiri háttar bilun á flutningskerfi.

Í framhaldi af þessum óformlegu viðræðum fóru forsvarsmenn Landsnets þess á leit við iðnaðarráðuneytið, í september 2006, að það kæmi að þessu máli með formlegum hætti. Þeir óskuðu eftir formlegum stuðningi ráðuneytisins til þess að koma neyðarsamstarfi raforkukerfisins á fót. Í byrjun nóvember 2006 var formlegur stofnfundur NSR, þ.e. Neyðarsamtarfs raforkukerfisins haldinn. Á þeim fundi voru öll helstu orkufyrirtæki og allir helstu leikendur á orkumarkaðnum auk ríkislögreglustjóra og sambands orkufyrirtækjanna. Þessir aðilar hafa allir átt með sér mjög gott samstarf á vettvangi raforkumála og voru sammála um gagnsemi og nauðsyn þess að koma upp sérstökum vettvangi til að vinna að tillögum um þetta neyðarsamstarf. Á þeim fundi var skipað í vinnuhópa sem síðan lögðu fram tillögur og sá hluti þessa frumvarps sem lýtur að neyðarvörnum byggist á þeim tillögum.

Í stuttu máli, herra forseti, gerir frumvarpið ráð fyrir að leggja þá lagalegu kvöð á herðar þeim aðilum sem ég taldi upp áðan að koma sér upp viðbragðsáætlunum sem væru jafnan til staðar í hverju fyrirtæki, og sömuleiðis er lögð sú lagalega skuldbinding á hendur Landsneti að það sé samræmingaraðili sem samræmi þetta starf, bæði áætlanagerðina og síðan viðbrögð ef upp koma áföll við almannavarnakerfið í landinu.

Þriðji þáttur þessa frumvarps lýtur að eftirlitsgjaldi sem kveðið er á um í raforkulögum. Þar segir að flutningsfyrirtæki og dreifiveitur skuli standa undir kostnaði vegna eftirlits með kerfinu. Gjaldið hefur til þessa verið 0,3 aurar á hverja kílóvattstund, sem leggst á flutningsfyrirtækið, en dreifiveitur hafa greitt 0,7 aura á hverja kílóvattstund. Orkustofnun hefur annast innheimtu þessa gjalds sem rennur í ríkissjóð. Það kemur skýrt fram í 1. mgr. 31. gr. laganna að gjaldinu sé ætlað að standa undir kostnaði við eftirlit samkvæmt þessum lögum.

Nú hafa tekjur af þessu gjaldi farið hækkandi frá því að raforkulögin voru sett, sem stafar fyrst og fremst af aukinni raforkuframleiðslu vegna stóriðjunnar. Í ljósi þess að fyrirmæli greinarinnar sem ég vísaði til áðan, 1. mgr. 31. gr., eru alveg skýr, í þá veru að gjaldið eigi einungis að standa undir kostnaði, er í þessu frumvarpi gerð tillaga um breytingu á fjárhæð eftirlitsgjaldsins. Hér leggur framkvæmdarvaldið til að gjaldið verði lækkað og verði með þeim hætti að flutningsfyrirtæki greiði einungis 0,2 aura á kílóvattstund en dreifiveitunum verði gert að greiða einungis 0,5 aura á kílóvattstund.

Hér er því um frumvarp að ræða sem horfir töluvert til framfara fyrir ákveðna geira orkuiðnaðarins. Því er ætlað að tryggja öryggi orkumarkaðarins með því að lögbinda ákveðnar kvaðir. Því er ætlað að auðvelda tiltekinni starfsemi að fá stöðu stórnotenda og þar með lægra flutningsgjald. Í þriðja lagi er lagt til að eftirlitsgjaldið sem hefur verið lagt á verði lækkað.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. iðnaðarnefndar.