135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:14]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð merkileg ræða og ansi íhaldssöm, fannst mér, af hálfu formanns Framsóknarflokksins, hv. þm. Guðna Ágústssonar. Sérstaklega fannst mér svolítið fróðlegt að heyra viðhorf hans gagnvart þeirri uppskiptingu sem varð og er samkvæmt þessu frumvarpi á málefnum viðskipta annars vegar og iðnaðar hins vegar með því að skipta þeim ráðuneytum í tvennt. Ástæðan fyrir því að ég segi að það hafi verið upplýsandi er sú að hv. þingmaður hefur, bæði í þessari ræðu sem og í fjölmiðlum núna í sumar og hans flokkur, haldið því fram að hér sé verið að skipta pínulitlu ráðuneyti í tvennt. Þetta þykir mér upplýsandi vegna þess að hv. þingmaður kemur úr þeim stjórnmálaflokki sem fór með þessa málaflokka í 12 ár og hann er hér með að lýsa því yfir að í hans huga séu orkumálin, málefni iðnaðarins og byggðamálin pínulítil verkefni sem voru í pínulitlu ráðuneyti.

Sömuleiðis er hv. þingmaður, finnst mér, ansi íhaldssamur í ræðu sinni vegna þess að við verðum að fara að horfast í augu við breytta tíma í samsetningu þjóðartekna. Ég vil draga það fram í þessari umræðu vegna þess að við erum að tala um — og ég tel að það sé mjög vel við hæfi — að nú við þessar breyttu aðstæður séum við með sérstakt viðskiptaráðuneyti. Undir viðskiptaráðuneytið fellur allur fjármálageirinn. Og til þess að draga hér fram stærð fjármálageirans á íslensku samfélagi í dag er hann að verða um 10% af þjóðartekjunum á meðan landbúnaðurinn, svo við tökum dæmi, er eitthvað rétt um 1%. Þetta er hin breytta veröld, virðulegi forseti, sem þessi ríkisstjórn er að svara, þetta er hinn breytti tími og ég held að Framsóknarflokknum færi betur að (Forseti hringir.) fylgja okkur inn í þessa nýju tíma.