135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:48]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar höfum um margt staðið okkur vel í þessum efnum og getum verið stolt af framgöngu okkar á undanförnum áratugum, einkum hvað það varðar að nýta auðlindir til þessa málaflokks. Við getum hins vegar gert margt betur en við búum við í dag, við eigum að gera það og einbeita okkur að því á sviði sjávarútvegs- og samgöngumála en þar eru miklir möguleikar á að draga úr útblæstri, sérstaklega á sviði sjávarútvegs með því að draga úr veiðum frystitogara og stórra skipa og auka veiðar minni skipa og báta sem geta hæglega veitt sama magn með minni tilkostnaði og minni mengun.

Við skulum hafa það hugfast að þessi viðfangsefni eru alþjóðleg þannig að Íslendingar einir og sér megna lítið öðruvísi en í alþjóðasamstarfi. Þannig eigum við að beita okkur á komandi árum, beita okkur fyrir því að gerðir verði alþjóðlegir samningar sem dragi úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og stuðla að því að aðrar þjóðir fallist á að gera slíka samninga og virða þá. Íslenska ákvæðið sem hér hefur verið nefnt er mikilvægt í alþjóðlegu samhengi. Það hefði aldrei verið samþykkt á sínum tíma ef tilgangurinn með því hefði verið sá einn að þjóna Íslendingum einum og fá þá til samstarfs í málinu. Svo var ekki, virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að aðrar þjóðir féllust á ákvæðið var sú, og er sú, að í hnattrænu tilliti er ávinningur af þessu ákvæði. Sá er kjarni málsins. Við eigum ekki að kasta frá okkur þeim möguleika og því tilboði sem við getum reitt fram til annarra þjóða um að hægt sé að nýta auðlindir hér á landi til framleiðslu á nauðsynjavöru sem mun verða framleidd á komandi árum með öðrum hætti ef þetta tilboð verður ekki til boða.