135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að gera grein fyrir því hvers vegna verið er að flytja þá til, er eitthvað að? Er eitthvað að hjá þessum skólum, eru einhver stjórnsýsluleg vandræði með þessa skóla, er eitthvað sem háir þeim þannig að þeir geti ekki þróast eðlilega eða hefur reynslan sýnt það á undanförnum árum að þessi stjórnsýslulega staða hái þeim? Ég vil fá þau svör, því að einhver rök verður forsætisráðherra að hafa þegar hann breytir stjórnsýslulegri stöðu stofnana sem eru búnar að standa í 100 ár.

Það er ekki hægt að segja: Af því bara. Það stendur reyndar ekkert um Hóla, það stendur ekkert í frumvarpinu um Hóla nema í hálfri setningu, að hann skuli fara undir menntamálaráðuneytið og síðan er engin útfærsla frekar. Hæstv. ráðherra upplýsti síðan áðan að það ætti eftir að skoða það. Ég vil fá svar hjá hæstv. forsætisráðherra um það hvort til standi nú eða á næstunni, hvort sem það er í tengslum við þetta frumvarp eða ekki, að breyta stöðu Hóla með því að svipta hann sjálfstæði sínu og gera hann að undirstofnun einhverrar annarrar stofnunar. Þetta er mikið mál. Þáverandi forsætisráðherra, Gunnar Thoroddsen, og ríkisstjórn hans ákváðu að endurreisa Hóla og ég vil heyra hvort hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde ætlar að svipta hann sjálfstæði sínu eða skapa það umhverfi og setja það í þann farveg að hann missi það aftur í tengslum við þessar lagabreytingar.